Landsbókasafn Íslands Háskólabókasafn

112. fundur
Föstudaginn 18. mars 1994, kl. 12:53:11 (5325)


[12:53]
     Guðrún Helgadóttir :

    Hæstv. forseti. Það kemur mér satt að segja á óvart í allri hreinskilni hvað menn eru uggandi um þetta frv. og hafa margar athugasemdir við það að gera. Í fyrsta lagi sýnist mér, og ég hef haft nógan tíma til að kanna málið og lesa frv. rækilega, að það sé mjög vel að þessu verki staðið og frv. hið ágætasta. Það er ekki hægt að búa til lagabálk um svo umfangsmikla stofnun og þjóðarbókhlöðu sem tekur á hverju smáatriði í rekstri stofnunarinnar. Það verður að vera hlutverk þeirra sem þar eiga að starfa, fólks sem hefur mesta þekkingu á þeim störfum. Ég held ekki að það sé skynsamlegt að þingmenn séu að setja því fólki nákvæmar reglur um alla skapaða hluti.
    Ég ætla að víkja hér að örfáum atriðum sem ég vil samt bæta í athugasemdasafnið. Í fyrsta lagi held ég að þessi stofnun eigi ósköp einfaldlega að heita þjóðarbókhlaða. Ég hef aldrei vitað til þess að Konungsbókhlaðan í Kaupmannahöfn hafi liðið fyrir það sem háskólabókasafn þó að hún heiti það og ég tel að þetta nafn sé þegar orðið fast í vitund Íslendinga og ekkert athugavert við það sem slíkt. Mér finnst algerlega ónauðsynlegt, vegna þeirra athugasemda sem hér hafa komið fram, að taka það sérstaklega fram að þjóðbókavörður skuli vera háskólamenntaður maður. Ég hélt að það þyrfti ekki að taka það fram. Það er misskilningur hjá hv. 9. þm. Reykv. Það segir í 13. gr., held ég, að hann eigi sæti í háskólaráði. Ég hef ekki vitað til þess hingað til að nokkur maður sem ekki hefur háskólapróf setjist í háskólaráð sem starfandi við stofnunina þannig að ég held að þetta sé bara misskilningur. ( SvG: Það er ekki misskilningur, hv. þm.) Það er ákvæði um það í 13. gr. að þjóðbókavörður eigi sæti á fundum ráðsins og ég vænti þess að ráðherra staðfesti það.
    Það er tvennt varðandi starfsmenn sem ég vil aðeins inna ráðherra eftir. Í 3. gr. segir varðandi endurskipun þjóðbókavarðar einu sinni að sex árum liðnum ,,án þess að staðan sé auglýst``. Þetta þykir mér dálítið kyndugt vegna þess að ég tel að verði staðan ekki auglýst, þá verði maðurinn beinlínis sjálfkjörinn hverju sinni. Ég á erfitt með að sjá að ráðið fari að taka það upp hjá sjálfu sér stundum og stundum ekki að auglýsa stöðuna. Ég hefði því viljað gera að tillögu minni að þessi orð ,,án þess að staðan sé auglýst`` fari út og vil biðja ráðherra að íhuga það.
    Þá finnst mér líka dálítið grimmilegt þetta ákvæði til bráðabirgða að öll störf í Landsbókasafni og Háskólabókasafni verði lögð niður og auglýst eftir öllum starfsmönnum. Sannleikurinn er sá að það vantar mikið á þó að allir þeir starfsmenn héldu áfram, þá vantar mikið á að sá starfskraftur dugi í hinu nýja safni og eftir því sem mér hefur skilist munu störf ekki skarast þarna mikið. Við eigum ekki svo mikið af sérmenntuðu fólki á þessum sviðum að þarna eru allir í störfum. Auðvitað kynni það að gerast að nýir umsækjendur kæmu sem strangt tekið væru kannski með fleiri háskólapróf og meiri menntun en fólk sem hefur verið þarna um árabil og borið hita og þunga starfsins og þá getur maður sett spurningarmerki við hvort sú staða getur komið upp að einhverjum yrði ýtt út og ég held að það sé í raun og veru óþarfi. Það er alveg tvímælalaust þörf fyrir alla þá sem þarna vinna.
    Það eru því þessi tvö atriði, ég vona að hæstv. ráðherra heyri það, sem ég vildi setja spurningarmerki við.
    Í 7. gr., um hlutverk bókasafnsins, er eitt sem maður rekur augun í. Það segir t.d. í 2. lið, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Að þaulsafna íslenskum gögnum, m.a. með viðtöku skylduskila, svo og að afla erlendra gagna er varða íslensk málefni.``
    Það er ekki mikið um og eiginlega ekkert um erlendar bækur nema þær fjalli um íslensk málefni og það stenst auðvitað ekki þar sem um er að ræða háskólabókasafn. Nú geri ég ráð fyrir að sami háttur verði á hafður, að menn óski eftir að pantaðar séu erlendar bækur eins og verið hefur eftir því hvaða greinar í háskólanum þarfnast þeirra, en ég vildi aðeins auglýsa eftir hugmyndunum um kaup á erlendum bókum.
    Annars þetta: Bókasöfn hafa náttúrlega undirgengist slíka byltingu að ekki er hægt að tala um bókasöfn á sama hátt nú til dags og fyrir örfáum árum. Nú er tölvutæknin slík að það er hægt að fá bækur yfir heiminn þveran án þess að nokkur bók komi til, allt getur þetta gerst gegnum tölvur. Það einfaldar auðvitað mjög öll skipti og alla útvegun bóka. Mér fannst menn tala hér eins og það væri sjálfgefið að öll sérsöfn flyttu í húsið á Melunum. Ég geri t.d. ekki ráð fyrir því að þó að bókasafn Seðlabankans sé komið inn í Gegni og þar með aðgengilegt hverjum sem hafa vill og til þess hafa tækni, verði það flutt í Þjóðarbókhlöðu. Ég vænti að það verði bara á sínum stað.
    Vegna þess að hér hefur líka verið kvartað yfir hugsanlegum skorti á rými til að lesa og stunda fræðimennsku í sjálfu húsinu, þá væri ekki úr vegi að athuga það húsnæði sem losnar í háskólanum sjálfum og ég verð að segja að mér finnst það kyndug umræða í meira lagi ef á að taka hana alvarlega að þar séu menn að jagast um hvort kennarar eða nemendur stofni þar til bjórstofu. Ég hélt að nær væri að nýta það pláss til að nemendur geti stundað þar sín störf því allt þetta er hægt að gera ef tölvutæknin er fyrir hendi.
    Mér finnst menn því einum of --- ég vil leyfa mér að segja neikvæðir. Mér finnst þessi rammi sem hér er gæti átt auðvelda leið í gegnum vorþingið. Ég held að það séu sáralitlar breytingar sem þarf að gera til þess að vel sé hægt að vinna eftir þessum lögum. Ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir alla aðila að við samþykkjum frv. á þinginu svo að þetta mikla safn geti nú tekið til starfa. Ég hef hins vegar heyrt áhyggjur manna þar í stofnun af því að erfitt gæti reynst að taka húsið í notkun 1. des. vegna þess að einhver dráttur hefur orðið á útboðum á því sem er nú ekki hvað þýðingarminnst í bókasafni, þ.e. hillunum og menn hafa af því áhyggjur að smíði þeirra geti tekið allmarga mánuði.
    Ég held ekki að ég hafi fleiri athugasemdir við þetta frv. Mér þykir það um margt gott og ég tel það verða

mikil tímamót í menningarsögu þjóðarinnar þegar Þjóðarbókhlaða tekur til starfa. Hér hefur verið minnst á þær skyldur safnsins að annast varðveislu tónlistarefnis. Safnið gerir það raunar nú þegar og þar er mikið til af slíku. Það hefur einfaldlega staðið á því að ekki hefur verið til fólk til að sinna því vegna fjárskorts og það er auðvitað í höndum okkar að sjá um að svo verði.
    Hér var minnst á prentskil og þar vil ég aðeins leiðrétta. Þrír aðilar fá sjálfkrafa sendar allar íslenskar útgáfur og það eru Háskólabókasafn, Landsbókasafn og Amtsbókasafnið á Akureyri. Í frv. er ákvæði um að prentskil til Háskólabókasafns fari nú til Þjóðarbókhlöðu, svo og Landsbókasafns þannig að þá eru aðilarnir, eftir því sem ég skil, einungis orðnir tveir og sýnist mér alveg frá því gengið að það sé ljóst hvernig því verður háttað.
    Amtsbókasafnið á Akureyri er svo annað mál sem við ættum einhvern tíma að hafa manndóm í okkur til að gera skil vegna þess að þar er mikill vandi uppi en hann er raunar annað mál.
    Aðeins að lokum þetta. Ég vil biðja hv. þm. að leyfa því fólki sem best þekkir til, hefur unnið í þessum stofnunum um ára- og áratugabil að vinna þetta verk án þess að við séum með nákvæmustu lagagreinar um alla skapaða hluti. Vitaskuld verður gefin út reglugerð á sínum tíma þegar þetta frv. er orðið að lögum og ég vona svo sannarlega í samráði við þá sem best vita um þessi mál, en mér fyndist það mikil sorgarsaga ef við færum að tefja framgang þessa máls á vorþingi með smáatriðum sem ég tel hiklaust að fagfólk eigi að leysa.