Fjáraukalög 1991

112. fundur
Föstudaginn 18. mars 1994, kl. 14:07:43 (5330)


[14:07]
     Jón Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Hv. 6. þm. Vestf. hefur gert grein fyrir nál. minni hluta fjárln. um þetta mál. Ég hef í sjálfu sér ekki miklu við það að bæta, vildi aðeins víkja að þeim ágreiningi sem verið hefur um uppsetningu ríkisreiknings og þá misvísun sem hér er á milli ára varðandi þau mál.
    Afstaða fulltrúa Framsfl. í fjárln. hefur verið sú að við höfum viljað bíða niðurstöðu ríkisreikningsnefndar um þetta mál. Við höfum ekki tjáð okkur um það á meðan ríkisreikningsnefnd er að störfum. Ríkisreikningsnefnd mun vera komin alllangt í störfum sínum og það er ljóst að álit hennar mun fjalla um hver framtíðin verður í þessum efnum en ekki um fortíðina. Það sem ræður afstöðu okkar í þessu efni er það að fyrst hún er sett út fyrir sviga, ef svo má að orði komast, fortíðin, þá verður auðvitað ekkert hjá því komist að taka tillit til þeirra ábendinga sem hér hafa komið fram um uppsetningu frá Ríkisendurskoðun. Það er náttúrlega fullkomlega óeðlilegt að afgreiða fjáraukalögin með þeim hætti sem hér er lagt til og við í minni hlutanum getum ekki borið ábyrgð á þeirri afgreiðslu.
    Þetta vildi ég láta koma fram þótt hv. framsögumaður nefndarinnar hafi gert ágæta grein fyrir þessari afstöðu í framsöguræðu sinni.