Fjáraukalög 1992

112. fundur
Föstudaginn 18. mars 1994, kl. 14:24:13 (5337)


[14:24]
     Frsm. meiri hluta fjárln. (Sigbjörn Gunnarsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir áliti meiri hluta fjárln. um frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1992.
    Nefndin hefur haft frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1992 til athugunar. Frv. þetta er annað fjáraukalagafrumvarpið sem lagt er fyrir Alþingi til samþykktar á umframgreiðslum úr ríkissjóði frá heimildum fjárlaga 1992. Alþingi samþykkti í desembermánuði 1992 fjáraukalög, nr. 118/1992, en þau fólu í sér auknar greiðsluheimildir frá fjárlögum 1992 um tæpa 3 milljarða króna. Með frv. þessu er sótt um heimildir til endanlegs greiðsluuppgjörs A-hluta ríkissjóðs á árinu 1992.
    Í fjáraukalögum fyrir árið 1993 er heimild til að flytja milli ára fjárveitingar til viðhalds- og stofnkostnaðar og enn fremur í nokkrum tilvikum rekstrargjöld vegna aðhalds og sparnaðar í rekstri á árinu 1992.
    Í frv. kemur fram að greiðslur úr ríkissjóði séu nettó 2.491 millj. kr. lægri en heimildir gerðu ráð fyrir. Sótt er um viðbótarheimildir að fjárhæð 1.330 millj. kr. en á móti eru greiðsluheimildir lækkaðar um 3.821 millj. kr.
    Við afgreiðslu nefndarinnar á frv. gerðu fulltrúar fjmrn. grein fyrir einstökum viðbótargreiðsluheimildum sem óskað var eftir frekari skýringum á. Þá kallaði nefndin til fulltrúa Ríkisendurskoðunar sem gerði grein fyrir athugasemdum stofnunarinnar sem fram koma m.a. í skýrslu hennar um framkvæmd fjárlaga árið 1992.
    Að lokinni athugun fjárln. á frv. og að teknu tilliti til þeirra skýringa, sem hún hefur fengið frá fjmrn. og Ríkisendurskoðun, leggur meiri hlutinn til að frv. verði samþykkt óbreytt.
    Undir nál. rita Sigbjörn Gunnarsson, Sturla Böðvarsson, Einar K. Guðfinnsson, Árni M. Mathiesen, Gunnlaugur Stefánsson og Árni Johnsen.