Sveitarstjórnarlög

112. fundur
Föstudaginn 18. mars 1994, kl. 14:49:39 (5343)


[14:49]
     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Ég fagna þeirri samstöðu sem tekist hefur um að afgreiða þetta mál út úr nefnd. Það er ljóst að það er einhugur um þá breytingu sem lögð er til í frv. þó með lítils háttar lagfæringu sem fram

kom í áliti Sambands íslenskra sveitarfélaga. Með þessu er verið að afmá úr lögum ákvæði sem sett voru sem sérstök lög árið 1970 og voru ætluð til þess að stuðla að sameiningu sveitarfélaga samkvæmt hugmyndum sem þá voru uppi og komu fram í framhaldi af nefndarstarfi sem fór fram árin 1966, 1967 og 1968.
    Það er skemmst frá því að segja að afrakstur þessarar lagasetningar frá 1970 hefur verið annar en til var ætlast. Það ákvæði laganna að knýja fram sameiningu gegn skýrum vilja meiri hluta íbúanna hefur í raun virkað öfugt. Sárafáar kosningar hafa farið fram á grundvelli þessa lagaákvæðis og í sárafáum tilvikum hefur orðið um að ræða sameiningu sveitarfélaga af þeim sökum.
    Ein höfuðástæðan að mínu viti fyrir því að ekki hefur verið meiri afrakstur af þessari lagasetningu árið 1970 er einmitt það ákvæði laganna að úrslit skuli ekki ráðast á grundvelli þess hvort fleiri eru með eða á móti heldur skulu úrslitin verða ákvörðuð fyrir fram og íbúum síðan gert skylt að sanna annað. Þ.e. að ákvæði laganna eins og þau eru í dag eru þannig að úrslit í sameiningarkosningu er ávallt talin samþykkt tillaga nema meiri hluti þeirra sem á kjörskrá eru segi nei. Þetta eru afar þröngir kostir og í reynd nánast ómögulegt að uppfylla þá, enda hefur reyndin orðið sú að mínu viti að sveitarstjórnir hafa veigrað sér við því að leggja í sameiningarferli á grundvelli þessa ákvæðis.
    Ég vænti þess og tel raunar víst að með þessari breytingu verði burtu tekin þessi hindrun og ég hygg að á næstunni, næstu mánuðum og árum, muni fara fram fleiri kosningar en verið hefur á undanförnum árum og áratugum vegna þess að mönnum mun ekki lengur vaxa í augum sú hindrun sem fyrir er og þykja leikreglur ákvarðaðar með lýðræðislegum hætti. Ég tel því að þessi breyting muni stuðla að því markmiði sem mjög margir hafa sett sér að það þurfi að fækka sveitarfélögum hér á landi. Þessi breyting yrði því prýðilegt innlegg inn í þá ætlan þó svo að meining manna sé ekki endilega sú sama að öllu leyti hvað það markmið varðar.