Heilbrigðisþjónusta

112. fundur
Föstudaginn 18. mars 1994, kl. 15:27:35 (5349)


[15:27]
     Flm. (Anna Ólafsdóttir Björnsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Fyrst varðandi það síðasta þá vafðist þetta töluvert fyrir okkur sem unnum að undirbúningi þessa máls og ég vil alls ekki taka af öll tvímæli um að það væri hægt að finna betri leiðir. Þar sem hv. þm. á sæti í heilbr.- og trn., ef ég man rétt, vonast ég til þess að hún komi með betri tillögur, hafi hún þær, því það er alls ekki hafið yfir gagnrýni að þetta sé endilega besta formið. En þetta er hins vegar það sem við lögðum til eftir nokkrar umræður.
    Varðandi það hvort hér sé um erlenda fyrirmynd að ræða þá er svarið nei, þessi umræða spratt upp og þróaðist á alllöngum tíma vegna ákveðinna ábendinga og starfsmenn nefndadeildar þingsins hjálpuðu mjög til við að móta frv. Hins vegar er það kannski aðalatriðið að hér er einmitt ekki verið að leggja til að neinn

utanaðkomandi aðili komi að málunum heldur hliðstætt því sem gerist á vinnustöðum hafi einn aðili kannski meiri skyldur og ábyrgð en annar. Þarna er líka verið að leggja til að jafnframt sé það viðurkennt sem hluti af viðbótarálagi á deildum, þeim deildum sem lagt er til að þetta kerfi sé reynt á til að byrja með en það er þar sem mjög veikir sjúklingar eru. Það er sérstaklega lögð áhersla á að þetta er viðbót við starf sem innt er af hendi á deildunum. Þetta hlutverk getur verið í hendi eins eða fleiri aðila og það er grundvallaratriði að sá aðili komi ekki utan frá, hann komi innan frá. En eins og Kristín Björnsdóttir segir í sinni grein sem ég vísaði til þá er þeim sem sjá um slík samráð ákveðinn vandi á höndum og það þarf í rauninni að vinna þetta samráð upp með ákveðnum hætti og það er ekki hægt að gera sömu kröfur til allra.