Heilbrigðisþjónusta

112. fundur
Föstudaginn 18. mars 1994, kl. 15:46:20 (5353)


[15:46]
     Flm. (Anna Ólafsdóttir Björnsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. þessa athugasemd. Ég get í rauninni tekið undir flest af því sem hún segir. Það er kannski eitt sem mér sýnist að okkur greini á um og ég held að það sé ekki mjög alvarlegt. Það er á hvern hátt frumkvæði verður til og hvernig slík þróun verður. Það er mat mitt og ástæðan fyrir því að ég flyt þetta frv. hér í þriðja sinn að það þurfi að vera ákveðin festa í þessu kerfi en það útilokar hins vegar alls ekki það að sjúklingur velji sér sinn eigin trúnaðarmann. Það gera margir sjúklingar. Ég hef meiri áhyggjur af hinum, sjúklingunum og aðstandendunum sem kannski verða afgangs þrátt fyrir góðan vilja allra aðila og þar af leiðandi sé ég kannski þessum málum frekar háttað með meiri formfestu. En eins og ég segi ég er opin fyrir öllum hugmyndum og ég er sannfærð um að þessi umræða og sú umræða sem er í gangi um þessi mál miðar að hinu sama og það er alveg áreiðanlegt að það er hægt að fá fólk til að ræða kosti og galla ýmissa hugmynda og þar á meðal þessarar og komast að niðurstöðu sem er þá öllum til hagsbóta.