Hlutafélög

112. fundur
Föstudaginn 18. mars 1994, kl. 16:42:08 (5363)


[16:42]
     Kristín Einarsdóttir (andsvar) :
    Frú forseti. Ég þakka ráðherranum svörin. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að það komi skýrt fram og reikna með að það sé rétt að það verði farið yfir það og þingmenn munu gera það.
    Varðandi efnislega það atriði sem ráðherrann nefndi þá er ég honum innilega sammála og ég tók það einmitt þess vegna sérstaklega upp að ég tel að það þurfi að reisa ákveðnar skorður við því að menn geti sett alltaf næsta og næsta fyrirtæki á höfuðið án þess að hægt verði vörnum við að koma því að auðvitað eru margir sem verða þá illa úti og eru mörg dæmi um það. Það getur vel verið að það séu einhverjar aðrar leiðir til. Ég tel í fljótu bragði að það sé vænlegra að setja skorður við því að menn hafi tækifæri til að gera þetta aftur og aftur. Það verður auðvitað kannað í nefnd. Þó að ég eigi ekki sæti í þeirri nefnd þá býst ég við að það verði vel farið yfir það og ég treysti þeirri nefnd vel með hjálp viðskrn. til þess að fara yfir þessi mál. En ég vil gera svona smáathugasemdir við að auðvitað hefur ráðherrann ekki annan kost en að una við niðurstöðu nefndarinnar en þykir mér samt mjög gott að heyra það frá hæstv. ráðherra því að það hefur stundum ekki verið þannig að hæstv. ráðherrar uni því að nefndir séu að krukka eitthvað í þeirra verk og það má stundum ekki hagga orði í frumvörpum sem ráðherrar hafa lagt fram. Þykir mér það mjög til bóta að heyra slík orð af hálfu hæstv. ráðherra.