Hlutafélög

112. fundur
Föstudaginn 18. mars 1994, kl. 16:58:51 (5366)


[16:58]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég bað um andsvar þegar hv. þm. ræddi um sameignarfélögin og hvort eignarhlutafélögin gætu komið í staðinn fyrir þau. Ég mundi nú vona að þessi eignarhlutafélög gætu sem mest leyst sameignarfélögin af hólmi því að sameignarfélagsformið er vægast sagt vandræðaform með óskiptri ábyrgð og hafa margir farið flatt á því sem ekki hafa áttað sig á því. Og eftir því sem ég best veit, þá eru ekki til nein lög um sameignarfélög. ( Viðskrh.: Skattalög.) Þau byggjast væntanlega bara á félagafrelsinu samkvæmt stjórnarskránni en skattalögin í því tilfelli eru að mínu mati afleit lög. Það þurfti að setja í skattalög ákvæði um sameignarfélögin þar sem þau voru orðin staðreynd.
    Varðandi það hvort þetta gæti leyst af hólmi félagsbúin frá bændum þá get ég ekki sagt um það núna en mér þykir það ótrúlegt. Ég vil benda á að það eru mjög fá félagsbú sem eru lögaðilar með sjálfstæða kennitölu. Það er miklu algengara þar sem ég þekki til að félagsbú séu óformleg, kannski getur maður ekki sagt óformlegt form, en það var form sem menn höfðu um viðskipti sín við aðila út á við en urðu síðan að skipta því upp aftur á skattaskýrslur þegar kom að því. Það voru ekki til að mynda félagsbúin sem töldu fram. Það er einnig til að bændur reki sameignarfélög um sinn búskap. Reynslan verður því að skera úr um að hvaða leyti þetta gæti nýst fyrir atvinnugrein eins og landbúnað, en ég nefndi það í minni ræðu áðan að ég teldi mjög athugandi hvort það væri hægt.