Eignarhlutafélög

112. fundur
Föstudaginn 18. mars 1994, kl. 17:14:08 (5376)

[17:14]
     Viðskiptaráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forseta og hv. þm. greiðviknina því að ég skil það svo að þeir mótmæli því ekki að höfð sé svona frekar fljótaskrift á því að mæla fyrir þessu frv. svo að frumvörpin geti fylgst að inn í hv. efh.- og viðskn.
    Ég skal vera mjög fljótur að mæla fyrir þessu máli. Við höfum þegar rætt það nokkuð. Hér er um að ræða leið sem ekki er tengd neitt EES-breytingunum að öðru leyti en því að það tækifæri er valið til að búa til einfaldara félagaform en fyrirfannst í frv. til laga um hlutafélög, sem ég mælti fyrir hér áðan. Lágmarksfjárhæðin er miklu minni heldur en gert er ráð fyrir þar. Það er gert ráð fyrir því að einn aðili geti verið eigandi. Það er líka gert ráð fyrir því í frv. að þessi eini eigandi geti jafnframt verið framkvæmdastjóri fyrirtækisins og alla reglur og lagarammar sem þessu rekstrarformi eru settir eru miklu einfaldari í sniðum en í frv. til laga um hlutafélög, jafnvel þó að blaðsíðurnar séu ekki færri í frv. og pappírinn lítið léttari sem í það fer. ( JGS: Enda er þetta er alveg nýtt frv.) Já, enda er þetta alveg nýtt frv.
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um það en segi eins og með fyrra frv. að það er mjög ákjósanlegt að þessi tvö frumvörp fái að verða samferða í afgreiðslu hv. nefndar. Ég sé kosti við það að menn taki það nú fljótlega til skoðunar, sendi það m.a. út til umsagnar, en ég ítreka það að ég mun ekki fara fram á það við nefndina að hún taki málið til afgreiðslu á þessu vorþingi ef hún metur það þannig sjálf að það sé réttara að menn gefi sér frekari tíma, en ítreka að ég mundi gjarnan vilja ná um það góðu samkomulagi við nefndarmenn, þó það sé ekki í samræmi við reglur þingskapa, að nefndin skoði málið óopinberlega einhvern tíma í sumar til þess að greiða fyrir gangi þess á haustþingi.
    Ég legg svo til, virðulegi forseti, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.