Kostnaður atvinnufyrirtækja af ákvæðum mengunarvarnareglugerðar

114. fundur
Mánudaginn 21. mars 1994, kl. 15:25:10 (5380)

[15:25]
     Fyrirspyrjandi (Sturla Böðvarsson) :
    Virðulegi forseti. Á þskj. 614 leyfi ég mér að bera upp fsp. til hæstv. umhvrh. um kostnað atvinnufyrirtækja, sveitarfélaga og opinberra stofnana af ákvæðum mengunarvarnareglugerðar.
    Í janúar sl. gaf hæstv. umhvrh. út mengunarvarnareglugerð sem er að efni til hin merkasta og setur skýran ramma um ýmsa mengandi starfsemi. Reglugerðin fjallar um eftirlit og varnir gegn vatnsmengun, loftmengun, varnir gegn mengun af völdum úrgangs, varnir gegn hávaða og um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun.
    Reglugerðin er mjög viðamikil og er á 22 síðum í Stjórnartíðindum auk þess sem á 101 síðu í Stjórnartíðindum eru viðaukar við reglugerðina. Við lestur þessarar reglugerðar varð mér ljóst að vegna ákvæða í henni hljóti að fylgja og verða verulegur kostnaður í bráð og lengd fyrir alla þá sem reglugerðin tekur til. Því leyfi ég mér að bera upp svohljóðandi fyrirspurn, hæstv. forseti:
    ,,Hefur í ráðuneyti umhverfismála verið lagt mat á kostnað atvinnufyrirtækja, sveitarfélaga og opinberra aðila við að uppfylla ákvæði mengunarvarnareglugerðar sem sett var 27. janúar sl.? Ef svo er, hver er kostnaðurinn talinn vera:
    a. af úrbótum á búnaði og mannvirkjum viðkomandi starfsemi,
    b. af árlegu eftirliti með þeirri starfsemi sem er eftirlitsskyld?``