Kostnaður atvinnufyrirtækja af ákvæðum mengunarvarnareglugerðar

114. fundur
Mánudaginn 21. mars 1994, kl. 15:27:20 (5381)


[15:27]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. fyrir þann áhuga sem hann hefur sýnt á þessum málum, bæði nú og með fyrri málflutningi hér í þinginu.
    Nú er það svo að hér er um viðamikinn málaflokk að ræða og erfitt að gefa í stuttu svari skýr svör við þessum yfirgripsmiklu spurningum. Umhvrn. hefur frestað að meta kostnað sveitarfélaga og eftirlitsaðila vegna nýrrar mengunarvarnareglugerðar en ítarleg kostnaðargreining hefur ekki farið fram. Það er rétt að undirstrika að í kjölfar breytinganna sem urðu á reglugerðinni var ekki um verulegar breytingar að ræða hvað varðar starfsleyfisskylda starfsemi þó kröfur séu nú að vísu settar fram með beinni og mun ákveðnari hætti heldur en áður. Ákvæðum fyrri reglugerða var hins vegar ekki framfylgt sem skyldi þannig að kostnaðarauki sem mundi hljótast af því að fylgja mjög strangt eftir hinni nýju reglugerð er ekki síst vegna ákvæða sem voru áður í gildi. Í reglugerðinni er fyrst og fremst vísað til þeirra markmiða sem ber að hafa að leiðarljósi þegar unnin eru starfsleyfi fyrir mengandi starfsemi en í fæstum tilfellum er tilgreindur tiltekinn búnaður eða ákveðnar tæknilegar lausnir og það er þess vegna, virðulegi forseti, sem ítarleg kostnaðarúttekt er erfið og sérstaklega er kostnaður atvinnufyrirtækja óviss.
    Það má líka nefna að auk mengunarvarnabúnaðar er komið á bættum aðferðum við vinnslu, endurnýting aukin og það er dregið úr myndun úrgangs þannig að hinar breyttu aðferðir geta skilað sér að einhverju leyti í bættri nýtingu hráefna eða lægri förgunarkostnaði. Þess vegna er erfitt að meta beinar kostnaðarbreytingar fyrirtækja. En það er rétt að upplýsa það, virðulegi forseti, að fulltrúi atvinnulífsins er í þeim hópi sem hefur yfirumsjón með gerð leiðbeininga. Þess vegna er óhætt að segja að það hefur verið haft fullt samráð við atvinnulífið um útfærslu reglugerðarinnar.
    Í fsp. er varpað fram tveimur afmörkuðum spurningum. Hvað varðar fyrri spurninguna um úrbætur og kostnað vegna úrbóta á búnaði og mannvirkjum sem tengjast þeirri starfsemi sem fellur undir reglugerðina, þá er rétt að greina frá því að hvað snertir sorp og úrgang þá birtist í reglugerðinni almenn stefnumörkun um úrgang, úrgangsmyndun og meðferð úrgangs og þar er að finna ákvæði um hvað skuli vera í starfsleyfum fyrirtækja sem meðhöndla úrganginn. Afleiðingin er m.a. sú að einungis tæknilega fullkomnar sorpbrennslustöðvar verða löglegar og fá starfsleyfi. Þetta hefur í för með sér verulegan kostnaðarauka fyrir sveitarfélög miðað við fyrri framkvæmd sorphirðu hér á landi. Sem dæmi mun stofnkostnaður við sorpbrennslustöðina í Vestmannaeyjum hafa verið á bilinu 20--25 þús. kr. á íbúa en stofnkostnaður við litla sorpbrennslustöð í Svínafelli var um 50 þús. kr. á hvern íbúa. Rekstrarkostnaður á íbúa liggur á bilinu 6--12 þús. kr. á ári eftir því hvernig förgun á óbrennanlegum úrgangi er háttað, hvort til að mynda sé hægt að nýta varmann sem verður til. Að því er sorpurðun varðar, þá er almennt gert ráð fyrir því að rekstrarkostnaður vegna sorpurðunar sé á bilinu 5--10 þús. kr. á íbúa á ári, ef fjármagnskostnaður er ekki talinn með.
    Í reglugerðinni er einnig mælt fyrir um losun mengandi efna í vatn. Þar eru ákvæði um fráveitur og meðferð skolps, bæði frá atvinnustarfsemi og sveitarfélögum. Í ákvæðunum er hins vegar ekki tiltekinn sérstakur búnaður en Hollustuvernd ríkisins falið að gefa út tæknilegar leiðbeiningar vegna fyrirtækja sem heilbrigðiseftirlit sveitarfélaganna veitir starfsleyfi.
    Það er erfitt að gera grein fyrir kostnaði atvinnugreina vegna aukinna mengunarvarna þar sem ekki hafa enn þá verið mótaðar kröfur fyrir nema fáar atvinnugreinar. Ég tek sem dæmi að þegar hafa verið gerðar leiðbeiningar varðandi verkstæði og smurstöðvar og réttingar- og málningarverkstæði og í ljós kemur að kostnaðarauki þessara fyrirtækja er fyrst og fremst fólginn í breyttri meðferð spilliefna. Á litlum verkstæðum til að mynda er helsti kostnaðurinn við aukinn búnað fólginn í olíuskiljum sem kosta innan við 500 þús. kr.
    Að því er varðar fráveitur sérstaklega, þá er í nýbirtri skýrslu fráveitunefndar reynt að leggja mat á kostnað við hönnun og byggingu fráveitna. Sá stofnkostnaður sem getur lagst á hvern íbúa getur því verið æðimismunandi eftir aðstæðum á hverjum stað, allt frá 30--80 þús. kr. auk rekstrarkostnaðar. Það má nefna að reynslutölur vegna fráveituframkvæmda á höfuðborgarsvæðinu benda til að kostnaður verði á bilinu 40--45 þús. kr. á íbúa. Kostnaður vegna hreinsibúnaðar sem er nýjung er áætlaður allt að 1,9 milljörðum kr. fyrir landið allt umfram kröfur í fyrri reglugerð, samanber fylgiskjal með frv. sem ég hef nýlega mælt hér fyrir.
    Að því er varðar kostnað af auknu eftirliti, þá er það svo að til að framfylgja ákvæðum mengunarvarnareglugerðar þarf að auka eftirlit og mælingar í sambandi við til að mynda loftgæði. Það þarf að setja upp tvær til þrjár mælistöðvar til þess að afla nauðsynlegra gagna. Stofnkostnaður þeirra er talinn fyrir ríkið vera um 20--30 millj. kr. á ári og kostnaður vegna rekstrar er talinn geta verið allt að 5 millj. kr. á ári. Aukið eftirlit vegna loftgæða að öðru leyti mun fela í sér þörf fyrir einn mann í viðbót í starfslið Hollustuverndar ríkisins og vegna vatnseftirlits og fráveitumála a.m.k. einn mann til viðbótar þar.
    Að því er varðar fyrirtæki má taka sem dæmi af Reykjavík en þar falla 560 fyrirtæki undir ákvæði reglugerðarinnar. Greiðsla þessara fyrirtækja til Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur er á þessu ári áætluð 2,5 millj. kr. En það er rétt að taka það fram að eftirlit hefur ekki verið jafnítarlegt og fyrri reglugerðir gáfu tilefni til. Væri haldið uppi fullu eftirliti í samræmi við reglugerðina þá mætti ætla að gjöld fyrirtækja á þessu svæði hér í Reykjavík gætu orðið 7,5 millj. kr. Þetta tek ég sem dæmi vegna þess, virðulegi forseti, að heildartölur liggja ekki alveg fyrir yfir landið.