Verndun nytjavatns

114. fundur
Mánudaginn 21. mars 1994, kl. 15:40:23 (5385)


[15:40]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég hafði vænst þess að þetta yrði e.t.v. eina fyrirspurnin á mínum ferli sem ég gæti svarað með því að taka ekki til máls. En hv. þm. Svavar Gestsson rændi mig þó þeirri ánægju.
    Það frv. sem hér er spurt um er frv. sem a.m.k. veitustofnanir í landinu hafa beðið eftir og hafa sýnt mikinn áhuga vegna þess að það tryggir með nokkuð róttækum hætti hagsmuni þeirra og reyndar annarra sem nytja vatn. Ástæðan fyrir því að þetta frv. hefur ekki verið flutt fyrr á þessu þingi er einfaldlega sú að það hefur verið ágreiningur innan stjórnarliðsins sem hefur fjallað um þetta, einkum er varðar þá þætti sem hv. þm. greip á. Í IV. kafla frv., sem ber heitið vatnsvernd, eru ákvæði, t.d. í 22., 23. og 24. gr. sem eru ansi róttæk og ýmsum hefur þótt sem þar sé vegið að eignarréttinum. Þess vegna er það svo að þetta frv. hefur verið í umræðu milli þingflokkanna tveggja eftir að það var afgreitt frá ríkisstjórninni fyrr í vetur, einhvern tíma skömmu eftir jólin ef ég man rétt, en hefur nú séð dagsins ljós í þessu formi. Ég er hins vegar sannfærður um það, virðulegi forseti, að þær greinar sem er að finna í frv. munu verða tilefni til mikilla deilna sem munu skera á öll flokkabönd. En hv. þm. Svavar Gestsson er deilinn vel.