Námsefni í fíknivörnum

114. fundur
Mánudaginn 21. mars 1994, kl. 15:44:41 (5388)


[15:44]
     Fyrirspyrjandi (Anna Ólafsdóttir Björnsson) :
    Virðulegi forseti. Ég beini fsp. minni til hæstv. menntmrh. en fsp. er að finna á þskj. 634.
    Fáum hefur blandast hugur um það að árangur hefur náðst með breyttum áherslum í vímuvarnamálum með kennslu fræðsluefnisins ,,Að ná tökum á tilverunni``. M.a. kemur þetta fram í svari félmrh. við fsp. Valgerðar Sverrisdóttur um málefni barna og ungmenna þar sem segir svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Í grunnskólum hefur um allnokkurt skeið verið unnið að vímuefnavörnum, aðallega með kennslu námsefnisins Lions Quest sem fleiri skólar taka upp í kennslu sinni. Unnið er stöðugt að útbreiðslu efnisins. Nokkur sveitarfélög, Reykjavík, Kópavogur og Hafnarfjörður, hafa veitt sérstakt fé til útbreiðslu efnisins og kennslu. Þá hefur Garðabær veitt fé til fíkniefnavarna í grunnskólum þar.``
    Þetta námsefni hefur náð mikilli útbreiðslu þótt eflaust megi gera betur. Hins vegar á þetta efni einungis við 7. og 8. bekk grunnskóla og mörgum hefur þótt að þar vanti á nokkra eftirfylgni og tilefni fsp. er einmitt það. Það hefur komið fram á vegum Fræðslumiðstöðvar í fíknivörnum að þar á bæ eru menn tilbúnir með ákveðnar tillögur á hvern hátt mætti koma slíku fyrir. Þarna er um að ræða að vinna á þeim

grunni og í kjölfarið á þeim árangri sem náðst hefur með námsefninu ,,Að ná tökum á tilverunni`` og margt af því fólki sem þarna kemur að verki er hið sama. Í markmiðum fræðslumiðstöðvarinnar hefur m.a. komið fram eftirfarandi, með leyfi forseta:
    ,,Eina nýjungin sem komið hefur fram er námsefnið ,,Að ná tökum á tilverunni`` sem ætlað er 13--15 ára börnum og nær til um það bil 30% grunnskóla í landinu, einkum á höfuðborgarsvæðinu. Eitthvað mun vera um að fíkniefni séu tekin fyrir í klúbbastarfi skóla og félagsmiðstöðva en það er tilviljunarkent það sem þar er gert. Því miður á allt þetta starf það sameiginlegt að vera ómarkvisst án nokkurrar eftirfylgni og engin þróun í samsetningu efnis eða efnismeðferð virðist eiga sér stað. Útgáfa upplýsinga- og fræðsluefnis er lítil. Unglingar eru ekki á nokkurn hátt mótandi í þessu starfi.``
    Mér er kunnugt um að ákveðnar tillögur liggja fyrir nú þegar varðandi þetta mál og það er eitt af mörgu sem æskilegt væri að gera. Því ber ég fram þessa fyrirspurn til hæstv. menntmrh.:
    ,,Er menntmrn. reiðubúið að styrkja gerð námsefnis í fíknivörnum fyrir 9. og 10. bekk grunnskóla til að fylgja eftir góðum árangri sem náðst hefur í yngri bekkjum með námsefninu ,,Að ná tökum á tilverunni``?``