Námsefni í fíknivörnum

114. fundur
Mánudaginn 21. mars 1994, kl. 15:48:26 (5389)


[15:48]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Hv. þm. spyr hvort menntmrn. sé reiðubúið að styrkja gerð námsefnis í fíknivörnum fyrir 9. og 10. bekk grunnskóla til að fylgja eftir góðum árangri sem náðst hefur í yngri bekkjum í námsefninu ,,Að ná tökum á tilverunni``. Lions Quest námsefnið ,,Að ná tökum á tilverunni`` hefur nú verið notað í 7., 8. og raunar 9. bekk grunnskóla um nokkurra ára skeið með góðum árangri. Notkun þessa námsefnis er háð því skilyrði að kennarar sæki 25 stunda námskeið í notkun þess. Alls hafa nú 615 grunnskólakennarar sótt slík námskeið og um 4.500 nemendur notað þetta námsefni.
    Menntmrn., Lionshreyfingin og foreldrasamtökin Vímulaus æska hafa staðið straum af kostnaði við þýðingu og staðfæringu námsefnisins ,,Að ná tökum á tilverunni`` og kostað námskeið fyrir kennara en kostnaður við útgáfu námsefnisins og dreifingu þess er hjá Námsgagnastofnun. Auk þess stendur Námsgagnastofnun straum af útgáfu námsefnis í fíknivörnum fyrir aðra aldursflokka.
    Fræðslumiðstöð í fíknivörnum hefur nýverið sent menntmrn. bréf þar sem lýst er áætlunum um gerð námsefnis fyrir 9. og 10. bekk grunnskóla um áfengi og óskað eftir fjárstyrk frá ráðuneytinu. Hugmyndin að baki þessu námsefni er góð og efnið hentar vafalítið vel til að fræða ungt fólk um skaðsemi áfengisneyslu. Lögum samkvæmt ákveður stjórn Námsgagnastofnunar hvaða námsefni er fengið eða framleitt fyrir það fé sem fjárlög ákveða stofnuninni. Erindi Fræðslumiðstöðvar í fíknivörnum hefur því verið vísað til Námsgagnastofnunar með þeim tilmælum að stofnunin kanni hvort grundvöllur er fyrir útgáfu efnisins í samvinnu við fræðslumiðstöðina.