Námsefni í fíknivörnum

114. fundur
Mánudaginn 21. mars 1994, kl. 15:55:04 (5393)


[15:55]
     Pétur Bjarnason :
    Virðulegi forseti. Ég fagna því að þetta skuli vera komið til umræðu hér en vildi í því sambandi gera athugasemd varðandi fíknivarnir. Það sem fyrst og fremst vekur athygli núna er að reykingar í grunnskólanum hafa aukist. Þær hafa aukist verulega. Fyrir svona 10--12 árum var gert verulegt átak, að miklu leyti fyrir tilverknað Krabbameinsfélags Reykjavíkur, og það náðist verulegur marktækur árangur. Einhverra hluta vegna hefur dregið úr þessum áróðri í skólunum þrátt fyrir ákveðna viðleitni. Ég held að það þurfi ekki síður að taka þetta inn í fíknivarnir og þarf eiginlega að byrja þarna. Það er merkjanlegur munur í elstu árgöngum núna og fyrir 2--3 árum hvað reykingar hafa stóraukist svo ég held að þarna þurfi að taka verulega á málinu.