Samgöngur í sameinuðum sveitarfélögum

114. fundur
Mánudaginn 21. mars 1994, kl. 15:56:36 (5394)

[15:56]
     Fyrirspyrjandi (Ingibjörg Pálmadóttir) :
    Virðulegi forseti. Fyrirspurn mín á þskj. 684 er til hæstv. félmrh. og er svohljóðandi:
    ,,Hvernig hyggst ríkisstjórnin standa við fyrirheit sín um bættar samgöngur í sameinuðum sveitarfélögum?``
    Nú hafa nokkrar sameiningar sveitarfélaga átt sér stað. Íbúar þessara sveitarfélaga sem sögðu já við sameiningu gerðu það fyrst og fremst í trausti þess að staðið yrði við loforð ríkisstjórnarinnar um bættar samgöngur. Forsenda þess að hagkvæmni verði af sameiningu sveitarfélaga er að sveitarfélögin geti talist eitt atvinnusvæði og dýr mannvirki samnýtist, svo sem skólar, heilsugæslustöðvar, félagsheimili og ekki hvað síst hafnir, svo eitthvað sé nefnt. Ef ófært er meira og minna allan veturinn innan sveitarfélagsins næst lítil hagræðing af sameiningu. Því er þessi fyrirspurn lögð fram: ,,Hvernig hyggst ríkisstjórnin standa við fyrirheit sín um bættar samgöngur í sameinuðum sveitarfélögum?``