Samgöngur í sameinuðum sveitarfélögum

114. fundur
Mánudaginn 21. mars 1994, kl. 15:57:45 (5395)


[15:57]
     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Í stefnumörkun ríkisstjórnarinnar vegna átaks um sameiningu sveitarfélaga segir að við ákvörðun um fjárveitingar og forgangsröðun framkvæmda í samgöngumálum á næstu árum verður m.a. tekið tillit til sameiningar sveitarfélaga. Ég tel ástæðu til að nefna að eðlilegt hefði verið að beina þessari fyrirspurn til hæstv. samgrh. enda leitaði ráðuneytið eðli málsins samkvæmt upplýsinga vegna svarsins hjá samgrn. Ég vil minna á að hæstv. samgrh. lagði áherslu á það í umræðum á Alþingi um sama efni í október sl. að í kjölfar kosninganna um sameiningu sveitarfélaga og þeirra nýju viðhorfa sem verulegar sameiningar sveitarfélaga hefðu í för með sér væri eðlilegt að á þessum vetri fram til vors hittist sveitarstjórnarmenn og þingmenn hinna ýmsu kjördæma áður en til endurskoðunar vegáætlunar kemur og ræði um það hvort sameining sveitarfélaga valdi því að nauðsynleg áherslubreyting verði að eiga sér stað.
    Framkvæmdir við nýbyggingar og endurbætur á vegakerfinu, sem unnar eru samkvæmt vegáætlun, þjóna m.a. þeim tilgangi að tengja saman nálæga þéttbýlisstaði og tengja þéttbýli við aðliggjandi dreifbýli. Hefur mörg undanfarin ár verið samstaða meðal þingmanna um að sú stækkun atvinnu- og þjónustusvæða sem með þessu fæst sé einn af þeim stóru þáttum sem hugsa þarf til við skiptingu fjármagns til framkvæmda. Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða með þessum hætti eykur möguleika á sameiningu sveitarfélaga.
    Núverandi ríkisstjórn hefur einnig litið svo á að hér sé um mikilvægt atriði að ræða sem taka þurfi fullt tillit til. Við ákvörðun um átak í vegamálum, sem hún beitti sér fyrir haustið 1992 með sérstökum fjárveitingum á árunum 1993--1995, var eitt af þeim atriðum sem haft var í huga m.a. sameining sveitarfélaga. Sum þeirra verkefna sem þar voru ákveðin tóku fyrst og fremst mið af þessu sjónarmiði. Má í þessu sambandi nefna framkvæmdir á norðanverðu Snæfellsnesi, Hálfdán í Vestur-Barðastrandarsýslu og Ólafsfjarðarveg norðan Dalvíkur. Önnur verkefni gera hvort tveggja að stækka atvinnu- og þjónustusvæði og leysa um leið af hólmi samgönguþröskulda á langleiðum. Dæmi um þetta eru vegir um Kúðafljót, Vatnsskarð og Jökulsá á Dal.
    Í samræmi við þessa stefnu mun ríkisstjórnin fyrir sitt leyti leggja áherslu á að við næstu endurskoðun vegáætlunar og langtímaáætlunar, sem fram fer veturinn 1994--1995, verði tekið tillit til þessara sjónarmiða þegar kemur að röðun verkefna í ofangreindum áætlunum.