Samgöngur í sameinuðum sveitarfélögum

114. fundur
Mánudaginn 21. mars 1994, kl. 16:03:03 (5398)


[16:03]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir að leggja þessa fyrirspurn fram. Mig langar til að spyrja: Er ekki neitt nýtt fjármagn ætlað í þessar bættu samgöngur innan sveitarfélaga sem hafa sameinast? Ég er hræddur um að það komi ýmsum í opna skjöldu ef ekki eru neinar hugmyndir um að fjármagna sérstaklega bættar samgöngur í sveitarfélögum sem hafa ákveðið sameiningu og ég er hræddur um að það muni mælast illa fyrir ef það er niðurstaðan.
    Mig langar síðan að spyrja sérstaklega út í það sem hæstv. ráðherra sagði hér áðan um að sums staðar hefði í sambandi við svokallað atvinnuátak í vegamálum verið farið í framkvæmdir vegna sameiningar sveitarfélaga og Snæfellsnes nefnt í því samhengi. Ef þar er átt við brúna yfir Hraunsfjörð, þá langar mig að spyrja: Sameiningu hvaða sveitarfélaga átti sú framkvæmd sérstaklega að þjóna?