Samgöngur í sameinuðum sveitarfélögum

114. fundur
Mánudaginn 21. mars 1994, kl. 16:07:17 (5402)


[16:07]
     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Því var haldið hér fram áðan af hv. 6. þm. Norðurl. e. að félmrn. hefði gefið loforð varðandi samgöngubætur á tilteknum stað vegna sameiningarmála. Félmrn. hefur aldrei gefið nein slík loforð um tilteknar bætur heldur hefur iðulega verið beint til ráðuneytisins beiðni um úrbætur í samgöngumálum í tengslum við sameiningu sveitarfélaga. Það sem félmrn. hefur gert þegar slík erindi berast vegna sameiningar sveitarfélaga er að þeirri ábendingu og erindinu er komið áleiðis til samgrh. sem hefur með þau mál að gera. Þannig að í því felst ekkert loforð af hálfu félmrn., enda er það ljóst að þessi málaflokkur heyrir undir samgrh.
    Varðandi stefnumörkun ríkisstjórnarinnar, þá kom það fram að ríkisstjórnin mun beita sér fyrir því við ákvörðun um fjárveitingar og forgangsröðun framkvæmda í samgöngumálum á næstu árum verði m.a. tekið tillit til sameiningar sveitarfélaga og því lýsti ég í mínu máli. Það kom reyndar fram einnig hjá samgrh. á hv. Alþingi að hann teldi eðlilegt að inn í endurskoðun vegáætlunar 1995 og 1996 komi breyttar forsendur og breytt viðhorf sem kunni að skapast vegna sameiningar sveitarfélaga. Hæstv. samgrh. lagði áherslu á að um það yrði haft samráð við þingmenn og sveitarstjórnarmenn og ég hef út af fyrir sig engu við það að bæta. Ég nefndi áðan ákveðna staði þar sem m.a. var ráðist í samgöngubætur með það fé sem ríkisstjórnin veitti til þeirra mála sem m.a. tók tillit til sameiningar sveitarfélaga.