Kílóagjald á bíla

114. fundur
Mánudaginn 21. mars 1994, kl. 16:09:48 (5403)


[16:09]
     Fyrirspyrjandi (Jóhannes Geir Sigurgeirsson) :
    Virðulegi forseti. Ég ber fram fyrirspurn á þskj. 728 til fjmrh. um kílóagjald á bíla. Fyrirspurnin hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Hvernig hyggst fjmrh. beita almennri heimild til undanþágu frá kílóagjaldi á bíla sem sett var í lög nú fyrir áramótin?``
    Við afgreiðslu skattafrumvarpa ríkisstjórnarinnar nú fyrir áramótin var samþykkt breyting í þá veru að fjmrh. fær heimild til þess að fella niður kílóagjald á bílum. Þetta virðist hafa verið gert vegna þess að ríkisstjórnin áttaði sig á því að með því að hækka kílóagjaldið um heil 30% um síðustu áramót væri þessi gjaldtaka í raun komin út yfir öll skynsemismörk og yrði í það minnsta að vera hægt að koma til móts við þá sem þetta bitnaði á af mestri ósanngirni. Þó svo hér sé um að ræða gjaldtöku sem ekki verður endurgreidd öðruvísi en eftir á, þá er afar mikilvægt að framkvæmdin á fyrirhuguðum endurgreiðslum liggi fyrir sem fyrst þannig að menn geti tekið ákvarðanir út frá því, m.a. um þann tíma sem bílar eru látnir standa án númera.
    Þessi breyting og háa gjaldtaka kemur illa við marga aðila. M.a. má nefna þá sem vegna búsetu sinnar þurfa að eiga fleiri en einn bíl og annar þeirra hugsanlega öflugur fjórhjóladrifsbíll. Þarna erum við að tala um skattheimtu sem er orðin 30--40 þús. á fjölskyldu á ári. Annar hópur sem ég vil nefna er bílaáhugamenn, t.d. eigendur húsbíla, sem oft er ekki ekið nema 2--3 þús. km á ári, en verða að greiða hámarkskílóagjald.
    Ég tel að með hækkuninni um áramótin hafi bílaeigendum endanlega ofboðið hvað varðaði kílóagjaldið. Þarna er um að ræða afar óréttlátan skattstofn. Í raun er þetta eignarskattur sem menn greiða fyrir að eiga bíla. Hann leggst hins vegar ekki á eftir verðmæti heldur eftir þunga bílsins.
    Það mætti tína til fleiri þætti varðandi skattlagningu á bílum. Hún er í það heila handahófskennd og virðist ekki fara eftir neinni markaðri stefnu. Það virðist enn vera litið á bílaeign sem lúxus sem sé allt í lagi að skattleggja í það endalausa.
    Í máli fjmrh. á Alþingi fyrir nokkrum vikum kom fram að Alþýðusamband Íslands kaus að hækka frekar kílóagjaldið en launaskattinn. Það væri afar fróðlegt að velta fyrir sér hvernig þetta kemur niður á einstaka launþegahópum. Þarna voru menn ekki að hugsa um þá lægst launuðu.
    Virðulegi forseti. Fjmrh. sagði á opnum fundi að menn hefðu verið að leita að hópi sem þyldi meiri skattlagningu þegar menn fundu það út að hækka kílóagjaldið á bílunum. Ég hlýt því að ítreka mína spurningu: Hvernig á að fara með þessa heimild? Hverjum mun hún nýtast? Nýtist hún m.a. þeim hópi sem ég nefndi hér áðan?