Kílóagjald á bíla

114. fundur
Mánudaginn 21. mars 1994, kl. 16:21:17 (5406)


[16:21]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Hæstv. forseti. Til þess að skýra út hvaða þýðingu sú hugmynd hefur sem ég reifaði, þá hefur hún þá þýðingu að húsbílaeigendur, sem hv. þm. benti á, sem nota slíkan bíl í fimm mánuði á árinu mundu fá til frádráttar sem svarar rúmlega þeirri ábót sem lögð var á í skatti í upphafi þessa árs ef þeir legðu númerum um sjö mánaða skeið. Fjórir mánuðir fengjust þá greiddir sem er þriðjungur úr ári, en það er hlutfallslega heldur meira en hækkunin var í ársbyrjun.
    Ég skal ekki deila við hv. þm. um réttlæti þessa skatts eða sanngirnina. Það er hárrétt að hann hefur verið gagnrýndur og meira að segja gekk svo langt á þeim fundi sem við vorum á báðir, ég og hv. þm., að einn fundarmanna taldi að skatturinn gæti ekki átt stoð í íslenskum rétti því að það væri hvorki tekið tillit til notkunar né verðmætis eignarinnar í þessum eignarskatti.
    Ég hygg nú að ríkið mundi vinna það mál, en ég skil hins vegar vel þá óánægju sem er með skattinn og tek undir það sem hv. þm. sagði að það þætti sjálfsagt óréttlátt ef lagðir yrðu skattar á menn hér á landi eftir þyngd og hæð og slíkum nótum. Þó að ég viti að þeir sem hér eru inni mundu ugglaust greiða atkvæði með slíku, þá er ég viss um að ýmsir þeir sem eru fjarverandi tækju ekki þátt í þeirri atkvæðagreiðslu með því að gjalda henni jáyrði sitt.