Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 13:57:24 (5409)

[13:57]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um ráðstafanir til að stuðla að stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum í kjölfar samdráttar í þorskafla.
    Engum dylst að á síðustu árum höfum við Íslendingar búið við erfið ytri skilyrði í efnahagslífinu. Ástæðurnar eru einkum niðursveifla í alþjóðlegu efnahagslífi og samdráttur í þorskveiðum hér við land. Þrátt fyrir þessi erfiðu ytri skilyrði hefur stjórnvöldum tekist að styrkja mjög stöðu atvinnulífsins með almennum aðgerðum á síðustu missirum. Verðbólga hefur ekki verið lægri í áratugi og raungengi er hagstæðara útflutnings- og samkeppnisgreinum en verið hefur í langan tíma. Skattar á fyrirtæki hafa verið lækkaðir verulega til að treysta stöðu þeirra og hamla gegn vaxandi atvinnuleysi. Fyrir atbeina ríkisvaldsins hefur ríkt vinnufriður og stöðugleiki á vinnumarkaði verið festur í sessi.
    Með markvissum aðgerðum hafa stjórnvöld skapað skilyrði til að lækka vexti sem hefur í för með sér að fjármagnskostnaður skuldugra fyrirtækja mun lækka verulega. Þrátt fyrir að þessar almennu aðgerðir til styrktar atvinnulífinu hafi komið sjávarútvegi til góða var stjórnvöldum ljóst að hinn mikli samdráttur í aflaheimildum kæmi verr niður á sumum landsvæðum en öðrum og að vert væri að kanna það sérstaklega. Í ljósi erfiðleika atvinnulífs og byggða á Vestfjörðum vegna aflasamdráttarins og yfirvofandi gjaldþrota fyrirtækja skipaði ríkisstjórnin í nóvember sl. starfshóp fjögurra ráðuneyta og Byggðastofnunar til að kanna þennan vanda. Starfshópurinn viðaði að sér margvíslegum gögnum um byggð og atvinnulíf á Vestfjörðum. Niðurstöður hópsins voru þær að Vestfirðir búi við sérstöðu vegna einhæfni atvinnulífs og landfræðilegrar einangrunar. Starfshópurinn benti m.a. á eftirfarandi:
    Aflaheimildir Vestfirðinga taldar í þorskígildum hafa dregist saman um tæp 30% á sl. tveimur fiskveiðiárum á meðan samdrátturinn var 12--17% í öðrum kjördæmum.
    Atvinnulíf á Vestfjörðum er einhæfara en í öðrum landshlutum og byggist að mestu á sjávarútvegi og tengdri þjónustu. Hlutfall sjávarútvegs af ársverkum á Vestfjörðum var 36%, en það er þrefalt hærra hlutfall en landsmeðaltal.
    Íbúum á Vestfjörðum hefur fækkað um 8% á síðustu 10 árum, en það er mun meiri fækkun en í öðrum landshlutum. Vestfirðir búa við meiri landfræðilega einangrun en aðrir landshlutar, hún torveldar uppbyggingu fjölbreytts atvinnulífs. Fjárhagsstaða þéttbýlissveitarfélaga á Vestfjörðum er áberandi verri en í öðrum landshlutum og stafar hún fyrst og fremst af stuðningi við atvinnurekstur á undanförnum árum.
    Þetta voru þau atriði sem starfshópurinn benti sérstaklega á í skýrslu sem send var forsrh. á sínum tíma. Starfshópurinn lagði áherslu á að stækkun atvinnu- og þjónustusvæða væri lykilatriðið til að styrkja byggð á Vestfjörðum og efla atvinnulíf í framtíðinni. Í ljósi þess og þeirrar sérstöðu Vestfjarða sem ég gat um áður tók ríkisstjórnin þá afstöðu að vinna að málinu með eftirfarandi fjögur atriði að leiðarljósi:
    1. Nú er unnið að stækkun atvinnu- og þjónustusvæða með því að bæta vegasamband milli þéttbýlisstaða og auðvelda þannig íbúum að sækja þjónustu og atvinnu á milli staða.
    Á vegáætlun eru áfram veittir verulegir fjármunir til samgönguframkvæmda sem stækka atvinnu- og þjónustusvæði. Á undanförnum árum hefur ríkissjóður varið miklu fé til að rjúfa einangrun byggða og bæta samgöngur jafnt innan svæða sem milli landshluta. Á Vestfjörðum verður á þessu og næsta ári varið tæpum 2 milljörðum króna í nýframkvæmdir í samgöngumálum og munar þar að sjálfsögðu mestu um jarðgöngin undir Breiðadals- og Botnsheiðar.
    2. Áætlaðar samgöngubætur eiga að greiða götu sameiningar sveitarfélaga þar sem vilji íbúanna

stendur til þess. Ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir átaki í sameiningu sveitarfélaga en hún er víða orðin vænlegri kostur en áður vegna betri samgangna. Sameining sveitarfélaga getur haft í för með sér sparnað fyrir ríki og sveitarfélög, bæði í rekstri og framkvæmdum og leiðir til markvissari stjórnunar með hagsmuni svæðisins í heild að leiðarljósi.
    3. Þar sem skuldastaða sveitarfélaga er þröskuldur í vegi sameiningar þeirra þarf nokkurn atbeina ríkisvaldsins til að ryðja þeim hindrunum úr vegi. Í samræmi við sveitarstjórnarlög verður fjármagn veitt úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga á árunum 1995--1998 til að jafna skuldastöðu sveitarfélaga sem sameinast. Þessum útgjöldum Jöfnunarsjóðs verður mætt að hluta með sérstöku framlagi úr ríkissjóði til Jöfnunarsjóðs á sama tímabili. Enn fremur er á því byggt að Lánasjóður sveitarfélaga veiti sveitarfélögum sem sameinast lánafyrirgreiðslu í formi skuldbreytinga.
    4. Sameiningu sveitarfélaga og stækkun atvinnu- og þjónustusvæða ber að nýta til að auka hagræðingu í veiðum og vinnslu og stuðla að nýsköpun í atvinnulífi. Frv. þessu er einmitt ætla að stuðla að samruna sjávarútvegsfyrirtækja.
    Samkomulag við helstu kröfuhafa þeirra er forsenda þess að það gangi upp. Jafnframt gæti fyrirtækjunum gefist kostur á að úrelda fiskvinnsluhús og skip með aðstoð Þróunarsjóðs sjávarútvegsins verði frv. um stofnun hans samþykkt, en það frv. liggur fyrir hv. Alþingi.
    Þetta eru, hæstv. forseti, þau atriði sem varða veginn í aðgerðum ríkisstjórnarinnar. Á næstu árum þarf að leggja höfuðáherslu á þessi atriði til að styrkja byggð á Vestfjörðum.
    Úttekt starfshópsins sem vitnað hefur verið til í þessari ræðu beindist að sjálfsögðu að sérstöðu Vestfjarða vegna einhæfni atvinnulífs, niðurskurðar aflaheimilda og landfræðilegrar einangrunar.
    Í framhaldi af því hefur ríkisstjórnin beint til Byggðastofnunar að gera úttekt á byggðarlögum sem kunna að hafa orðið fyrir sambærilegum samdrætti í aflaheimildum, búa við áþekka einhæfni atvinnulífs og einangrun og vinna að stækkun atvinnu- og þjónustusvæða með sameiningu sveitarfélaga.
    Tilgangur þess að stuðla að öflugum atvinnu- og þjónustusvæðum er að auka hagkvæmni í atvinnurekstri og treysta þar með byggð á Vestfjörðum. Til að slíkt takist þurfa fjölmargir aðilar að taka höndum saman um það verkefni. Þar má nefna sveitarstjórnir, forráðamenn fyrirtækja, starfsfólk þeirra og kröfuhafa. Með frv. þessu vill ríkisstjórnin leggja sitt af mörkum til að stuðla að stækkun atvinnu- og þjónustusvæða og eflingu byggðar á Vestfjörðum.
    Ljóst er að lánveitingar ríkisins einar og sér munu ekki bjarga öllu nema síður sé heldur ber að líta á þær sem eitt lóð af mörgum sem leggja þarf á vogarskálar atvinnu- og byggðamála á Vestfjörðum.
    Ef búa á í haginn fyrir framtíðina þurfa bæði heimamenn og ýmsir kröfuhafar að leggja sitt af mörkum. Frumkvæði ríkisins á hins vegar að vera til að hvetja menn til dáða og stuðla að nauðsynlegum breytingum.
    Í frv. er gert ráð fyrir að heimilt verði að veita allt að 300 millj. kr. á árinu 1994 til þess að styrkja byggð á Vestfjörðum. Aðstoðin er þó bundin ströngum skilyrðum sem eiga að hvetja til varanlegrar hagræðingar. Þar sem sveitarfélög verða sameinuð er Byggðastofnun heimilt að veita sjávarútvegsfyrirtækjum sem áhuga hafa á sameiningu víkjandi lán. Sama gildir um þau sjávarútvegsfyrirtæki á Vestfjörðum sem hafa sameinast á þremur síðustu árum.
    Samkvæmt frv. sem hér er til umræðu er gert ráð fyrir að skipaður verði fjögurra manna starfshópur með fulltrúum frá þremur ráðuneytum og Byggðastofnun til að fjalla um lánsumsóknir í samráði við forráðamenn fyrirtækja, banka, sjóði og aðra helstu kröfuhafa.
    Hópurinn mun veita umsækjendum aðstoð við endurskipulagningu rekstrar í tengslum við sameiningu. Ráða á rekstrarráðgjafa til að aðstoða hópinn við þá vinnu. Framangreindir aðilar skulu stuðla að samkomulagi um víðtæka skipulagsbreytingu á sjávarútvegsfyrirtækjum á viðkomandi atvinnusvæði. Samkomulagið skal einnig taka til skuldbreytinga, hlutafjáraukningar, eignaraðildar og stjórnunar. Þá skal gerð grein fyrir rekstrarhorfum miðað við tilteknar forsendur um aflamagn og rekstrarskilyrði. Þess skal getið að að sjálfsögðu er ekki hægt að miða við það aflamagn sem nú berst að landi á Vestfjörðum því ljóst er og spáð er, sem betur fer, að afli muni aukast eða öllu fremur að leyfður verði meiri afli og leyft verði að taka meiri þorskafla úr sjó einhvern tímann á næstu árum sem auðvitað kemur Vestfirðingum og vestfirskum fyrirtækjum til góða.
    Að þessu loknu ákveður starfshópurinn hvort gera skuli tillögu til stjórnar Byggðarstofnunar um lánveitingu. Stjórn Byggðastofnunar samþykkir eða synjar lánveitingu á grundvelli tillagna starfshópsins. Samþykki hún tillögur starfshópsins um lánveitingu óskar hún eftir því við fjmrn. að fá jafnhátt framlag úr ríkissjóði. Skilmálar lánanna verða þannig að þau eru verðtryggð, en vaxtalaus fyrstu þrjú árin. Eftir það bera þau 5% vexti. Fyrstu þrjú árin eru lánin afborgunarlaus, næstu þrjú ár skal einungis greiða vexti, á næstu 10 árum greiðast höfuðstóll, vextir og verðbætur. Þau árin sem fyrirtækin ná ekki tilteknum skilyrðum, m.a. um hagnað og eigið fé, færist greiðsla afborgana og vaxta aftur fyrir lánstímann. Þessi atriði þarf auðvitað að skoða mjög rækilega til þess að þessi aðstoð, þessi víkjandi lán, komi að sem bestum og varanlegustum notum.
    Auk aðgerða til að stuðla að hagræðingu í sjávarútvegi er einnig gert ráð fyrir að Byggðastofnun ráðstafi 15 millj. kr. af framangreindum 300 millj. kr. til að styðja við nýjungar í atvinnumálum á Vestfjörðum og auka fjölbreytni atvinnulífs.

    Í þessu sambandi hefur fyrst og fremst verið litið til frekari úrvinnslu í sjávarútvegi. Þar kemur auðvitað margt til greina, ekki síst eftir að opnast hafa, ef ég má orða það svo, nýir markaðir með tilkomu Evrópska efnahagssvæðisins. Einnig hljóta menn að líta til ferðamálanna sérstaklega, en eins og allir vita hafa Vestfirðir upp á margt að bjóða í því sambandi.
    Aðgerðir þær sem birtast í frv. sem hér er til umræðu eru að ýmsu leyti frábrugðnar aðgerðum sem áður hefur verið beitt til lausnar á vandamálum atvinnulífs. Hér er ekki verið að dæla út milljörðum á sama hátt og gert var með stofnun Atvinnutryggingasjóðs útflutningsgreina, svo tekið sé dæmi af nýlegri aðgerð. Hér er reynt að stuðla að hagræðingu á markvissari hátt.
    Hin ströngu skilyrði fyrir því að fá víkjandi lán, þ.e. að sveitarfélög sameinist og að fyrirtæki sameinist, stuðla einarðlega að því að efla byggð í framtíðinni á þessu svæði. Ef byggð á að halda velli þurfa menn að nýta þau tækifæri sem bættar samgöngur gefa og taka saman höndum í stað þess að hver vinni í sínu horni og nái ekki tilætluðum árangri.
    Lausnir á atvinnu- og byggðarvanda felast ekki hvað síst í því að fyrirtæki í sjávarútvegi nýti möguleika til samstarfs og samnýtingar rekstrarþátta. Slíkt samstarf og myndun stærri eininga virðist það sem koma skal. Það á þó ekki við í öllum tilvikum því auðvitað geta smærri fyrirtæki sýnt mjög góða afkomu og til eru dæmi um það, líka á Vestfjörðum, að lítil fyrirtæki hafa hingað til sýnt fádæma góða afkomu og veit ég að ýmsir hér í salnum kannast við fyrirtæki sem nefna mætti í því sambandi.
    En slíkt samstarf eins og ég minntist á hér áðan, sem stækkar einingarnar, getur verið heppilegt. Ég tel að nýlegt dæmi um kaup Granda á hlutabréfum í Þormóði ramma sé einmitt dæmi um það sem getur átt að koma og getur verið mjög heppilegt fyrir atvinnuþróun hér á landi. Það hlýtur að vera umhugsunarvert að sterk fyrirtæki vilji dreifa áhættunni í fiskvinnslunni og útgerð með því að kaupa hlutabréf í öðrum fyrirtækjum og styrkja þannig atvinnulífið hvarvetna á landinu. Ég nefni þetta sérstaklega og í raun væri þess virði að bæta því hér við að fyrstu skrefin einmitt varðandi Þormóð ramma og þau næstu voru m.a. tekin af síðustu stjórn og hv. 8. þm. Reykn., fyrrv. fjmrh., sem sýndi þessu máli mikinn skilning. Vænti ég þess að flokksmenn hans sem hér eru staddir í salnum, hv. þm., sýni þessu máli jafnmikinn stuðning og skilning og þá var uppi.
    Tilgangur frv. þessa er að stuðla að stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum. Með öflugum atvinnusvæðum verða Vestfirðingar betur í stakk búnir til að takast á við þá tímabundnu erfiðleika sem samdráttur í þorskafla hefur í för með sér. Þegar á þetta er minnst þá er kannski líka ástæða til að geta þess hér að ýmsir hafa bent á að atvinnuleysi sé víðast hvar meira en á Vestfjörðum. En þegar á það er bent er líka rétt að það komi fram að þessi aðgerð er ekki til þess að takast á við núverandi atvinnuleysi á Vestfjörðum heldur er verið að benda á það að hvergi á landinu á fólk í jafnstórum stíl allt sitt undir sjávarútveginum. Það er upp undir 40% af mannaflanum sem vinnur við sjávarútveg þannig að ef fyrirtækin falla, ef skipin flytjast úr fjórðungnum, þá blasir ekkert við nema atvinnuleysi. Og til þess að taka samanburð úr mínu eigin kjördæmi, þá vinnur í mínu kjördæmi hér í Reykjavík líklega milli 2 og 3% mannaflans við sjávarútveg. Þetta er það sem auðvitað sýnir hinn mikla mun sem er á öðrum svæðum heldur en Vestfjörðum þar sem svo gífurlega stór hluti mannaflans vinnur að fiskveiðum og hefur orðið hart úti vegna þess hvernig fiskveiðarnar hafa skipast á undanförnum árum og afli borist á land.
    Auk þess að styrkja byggð í sessi getur stækkun atvinnu- og þjónustusvæða haft í för með sér umtalsverðan sparnað í framtíðinni fyrir ríki og sveitarfélög jafnt í rekstri sem framkvæmdum. Ég legg áherslu á það að þessi aðgerð mun örugglega, þegar fram líða stundir, skila sér í lækkuðum útgjöldum ríkisins og væntanlega sveitarfélaganna á þessu svæði.
    Virðulegi forseti. Ég veit að hér er á ferðinni viðkvæmt mál og þegar þannig er þá líta hv. þm. venjulega til sinna heimkynna, í eigin barm og spyrja sig að því: Get ég ekki fengið eitthvað fyrir mig eða mitt kjördæmi? Það er afskaplega eðlilegt að þannig sé hugsað. Ég vil hins vegar taka það fram að það mál sem hér er til umræðu hefur verið skoðað ofan í kjölinn. Það er niðurstaða ríkisstjórnarinnar að þetta sé aðgerð sem komi til með að borga sig. Menn geta kallað þetta sértæka aðgerð og það er auðvitað sjálfsagt að gera það. Ríkisstjórnin sem nú situr hefur fyrst og fremst beitt almennum aðgerðum, en við teljum sjálfsagt að beita í þessu tilliti sértækri aðgerð vegna þess mikla vanda sem menn standa frammi fyrir á þessum stað og vegna þess að við búumst við því að á allra næstu árum muni þorskafli glæðast og þá muni á ný eflast fyrirtæki, byggð og mannlíf á Vestfjörðum.
    Það er þess vegna sem ég óska eftir því að þetta frv. fái góða afgreiðslu hjá hinu háa Alþingi. Því verði vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn. Og ég heiti á hv. þm. að sýna stuðning sinn í verki með því að samþykkja frv. sem hér er til umræðu og koma því eins hratt og kostur er í gegnum hið háa Alþingi.