Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 14:29:21 (5416)


[14:29]
     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þetta voru býsna loðin svör. Af þeim má þó ráða að það sem ráðherrann er að segja er: Við ætlum að láta ykkur hafa peninga til þess að þið getið keypt kvóta til baka. Hvers konar skynsemi er í svona stjórnarathöfnun? Þegar búið er að selja togarann frá sunnanverðum Vestfjörðum til Grundarfjarðar eða Þorlákshafnar þá eigi síðan að láta menn hafa peninga til þess að kaupa kvótann til baka. Er ekki hægt að úthluta þessum kvóta öðruvísi, þessari aukningu sem á að verða? Er ekki hægt að úthluta henni þangað sem hennar er mest þörf til að jafna skerðinguna? Vandinn er nefnilega sá, hæstv. ráðherra, að menn hafa verið ójafnaðarmenn í aðgerðum sínum. Menn hafa skert byggðarlög og landsvæði misjafnt eftir aflasamsetningu veiðanna í stað þessa að jafna skerðinguna og hafa þetta jafnt í þorskígildum. Þá þyrftu menn ekki að fara í einhverjar sértækar aðgerðir. Þannig að ríkisstjórnin hefur búið sér til sitt eigið vandamál með ójafnaðarstefnu.