Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 14:32:22 (5418)


[14:32]
     Guðmundur Bjarnason :
    Hæstv. forseti. Það var augsýnilegt að hæstv. fjmrh. leið heldur illa þegar hann var að mæla fyrir þessu mikilvæga frv. sem hér er til umræðu. Það var greinilegt að hann hafði ekki mikla sannfæringu fyrir því sem hann var þó að leggja til, sem ég tel að sé afar mikilvægt. Það er afar mikilvægt að ríkisstjórnin viðurkenni það nú loksins að það er nauðsynlegt að grípa til aðgerða og stundum verða menn að brjóta í blað. Forsrh. hefur kallað það stílbrot en stundum er það nauðsynlegt þegar atvinnufyrirtæki og heilu byggðarlögin eru í þeim vanda stödd sem nú blasir við á Vestfjörðum. Því tel ég að frv. þetta sé afar mikilvægt og það var hálfaumkunarvert að sjá hæstv. fjmrh., hversu illa honum leið að þurfa nú að framkvæma þetta stílbrot á frjálshyggjunni sem núv. ríkisstjórn hefur þó haft að leiðarljósi.
    Mér finnst það varla sæmandi, hæstv. forseti, að hvorki hæstv. félmrh. né hæstv. sjútvrh. skuli vera viðstödd þessa umræðu, ég tel að þau ættu bæði að vera hér. Auðvitað hefði átt að krefjast þess að umræðunni yrði frestað þar til hæstv. forsrh. væri hér viðstaddur en það tefur málið og fyrir því viljum við auðvitað ekki standa. En þetta varðar stefnu þessarar ríkisstjórnar svo mikið að hæstv. forsrh. hefði náttúrlega átt að mæla fyrir málinu. En málið varðar líka verulega hæstv. félmrh. sem á hér þrátt fyrir allt hlut að máli og þá auðvitað einnig stöðu sjávarútvegsins og því sagði ég það, hæstv. fjmrh., að þessir ágætu ráðherrar, samráðherrar þínir, hefðu gjarnan mátt vera við umræðuna og auðvitað ætti að krefjast þess. En ég hefði ekki á móti því að hæstv. félmrh. og hæstv. heilbrrh. og aðrir kollegar þínir væru hér viðstaddir líka, en ég geri ekki kröfu um það.
    ( Forseti (VS) : Forseti gerir athugasemd við ávarp til hæstv. fjmrh.)
    Ég biðst afsökunar á því, virðulegur forseti, það var ekki meining mín að tala ósæmilega til hæstv. fjmrh. þó mér finnist hann heldur aumkunarverður í augnablikinu. Og hafi mér orðið á mismæli þá biðst ég afsökunar á því.
    Þegar núv. hæstv. ríkisstjórn tók við völdum fyrir tæpum þremur árum síðan þá var hún uppi með miklar heitstrengingar um breytingar á efnahagsstefnu. Lögmálin sem átti að fara eftir voru m.a. þau að markaðurinn skyldi ráða, frjálshyggjan skyldi höfð í fyrirrúmi, sértækum aðgerðum skyldi hætt, sjóðasukk lagt af, svo eitthvað sé nefnt af því sem hér var títt dregið inn í umræðuna af hæstv. ráðherrum og hæstv. forsrh. þegar hann gerði grein fyrir stefnu sinnar ríkisstjórnar. Og auðvitað var fortíðarvanda kennt um alla erfiðleika. Það sem ríkisstjórnin sá síðan brýnast að gera og var ein af hennar fyrstu aðgerðum og auðvitað róttækasta og áhrifamesta breytingin, og afleiðing í efnahags- og atvinnulífi hefur heldur ekki látið á sér standa, var auðvitað að hækka vextina. Þetta hafði alvarlegar afleiðingar fyrir atvinnulíf sem vissulega var skuldugt. Það sýndu m.a. aðgerðir fyrrv. ríkisstjórnar þegar gripið var til aðgerða til þess að styrkja stöðu atvinnuveganna m.a. með stofnun Atvinnutryggingarsjóðs útflutningsgreina sem ég ætla aðeins að koma hér að síðar. En það var til að styrkja stöðu þessara atvinnugreina vegna þess hvernig ástandið var orðið á árunum 1987 og 1988 að til þessara aðgerða var gripið. Vissulega var atvinnulífið skuldugt og átti erfitt með og mátti varla við því að fá stórfellda vaxtahækkun. Enda hafa afleiðingarnar verið þær að skuldir atvinnuveganna hafa vaxið frá árslokum 1990 þegar þær voru um 260 milljarðar kr. í nær 330 milljarða kr. í árslok 1993 eða um 23--24% sem hækkunin hefur verið. Það má með einföldum útreikningi leiða líkur að því að um helmingur af þessari skuldaaukningu hafi verið vegna vaxtahækkunar. Helmingurinn af þessari skuldaaukningu hafi verið vegna þeirrar vaxtahækkunar sem kom í kjölfar stjórnarskiptanna. Það er því ljóst að stjórnvöld hefðu þá þegar átt að haga sér með öðrum hætti við að styrkja og aðstoða atvinnulífið en það mátti ekki vegna þess að efnahagsstefnan var sú að markaðurinn skyldi ráða. Ríkisstjórnin skildi ekki þá þörf sem atvinnulífið er ávallt í, ekki bara þá og ekki bara nú heldur alla jafna, að stjórnvöld vinni með atvinnulífinu. Og afskiptaleysið sem ríkti á fyrstu missirum í valdatíð þessarar hæstv. ríkisstjórnar hlaut

að enda með þessu.
    Það má kannski bæta því hér inn í að þetta hafa auðvitað sveitarstjórnirnar orðið alvarlega varar við. Sveitarstjórnirnar hafa reyndar haft nokkuð önnur viðhorf til atvinnumálanna heldur en hæstv. ríkisstjórn því þær hafa á þessum síðustu árum orðið að leggja verulega fjármuni og aðstoða umtalsvert við það að halda atvinnulífinu gangandi í sínum byggðarlögum, á sínum svæðum og orðið að setja umtalsvert fé af sínum fjármunum, sem eiga þó auðvitað eðli máls samkvæmt að renna til annarra hluta heldur en að veita þá í atvinnufyrirtækin, hafa orðið að grípa til þeirra neyðaraðgerða vegna afskiptaleysis hæstv. ríkisstjórnar. Nú eru þó viðhorf hæstv. ríkisstjórnar eitthvað að breytast. M.a. má minna á þá vaxtalækkun sem ríkisstjórnin beitti sér fyrir á seinustu mánuðum nýliðins árs og ber auðvitað að fagna því að ríkisstjórnin skyldi að lokum átta sig á því að þessi hávaxtastefna gæti ekki gengið og hlyti að ríða atvinnulífinu endanlega að fullu svo og auðvitað einnig bæði fjölskyldum og einstaklingum ef ekki yrði gripið til einhverra aðgerða og þá beitti ríkisstjórnin þessari handleiðslu eða handafli að lækka vextina. Og nú er gripið til sértækra aðgerða eins og frv. þetta sem hér er til umræðu gerir vissulega ráð fyrir.
    Eins og ég sagði í upphafi þá gagnrýni ég ekki að litið skuli á erfiðleikana sem eru nú að skapast eða kunna að vera fram undan á Vestfjörðum og í einstökum byggðarlögum og hjá einstökum fyrirtækjum þar. Þetta eru vissulega miklir erfiðleikar og frv. fjallar fyrst og fremst um það þó reynt sé að búa það örlítið í annan búning með því að gefa því heitið að þetta séu ráðstafanir til að stuðla að stækkun atvinnu- og þjónustusvæða. Þetta er auðvitað frv. og ráðstafanir ríkisins til að styrkja atvinnulífið á þessu svæði.
    Hins vegar tel ég umhugsunarvert hvernig að málum er staðið og hefði talið að sértækar aðgerðir eins og hér er verið að tala um mættu vera og ættu að vera með nokkrum öðrum hætti. Ef hægt er að tala um sértækar aðgerðir yfirleitt þá eru það þessar aðgerðir þar sem hér er gripið til ráðstafana vegna einnar atvinnugreinar í einum landshluta og þar að auki háð því að fyrirtæki séu að sameinast og ekki nóg með það heldur að það séu einnig fyrirtæki í byggðarlögum sem eru að sameinast. Svo langt er gengið að það hljóta að vera sett til hliðar með þessum ströngu skilyrðum bæði fyrirtæki og byggðarlög á Vestfjörðum sem þó hafa sannarlega þörf fyrir aðstoð og ættu hana sannarlega skilið.
    Ég mundi nú kannski fremur vilja kalla þetta nauðsynlegt inngrip stjórnvalda í atvinnulífið þegar heil byggðarlög standa frammi fyrir alvarlegum erfiðleikum. Við höfum vissulega fengið athugasemdir frá öðrum byggðarlögum. Við þingmenn Norðurl. e. höfum t.d. átt fund með fulltrúum Eyþings, en það eru landshlutasamtök sveitarfélaga í Norðurl. e., og við höfum einnig átt fund með þingmönnum Norðurl. v., sameiginlegan fund þar sem við ræddum við fulltrúa frá stjórn Útvegsmannafélags Norðurlands þar sem fjallað var um málefni og ástand fyrirtækja og byggðarlaga á þessu svæði. Þar komu auðvitað fram athugasemdir um það hvernig að málum væri staðið að þessu leytinu til og var fullkomin samstaða með þeim þingmönnum sem sátu þessa fundi, bæði þingmönnum stjórnar og stjórnarandstöðu, um að nauðsynlegt væri að koma til aðstoðar við önnur byggðarlög þar sem svipað væri ástatt, sem byggju við svipuð skilyrði og svipað væri ástatt með eins og á ýmsum byggðarlögum og kannski má segja Vestfjörðum í heild því að ég tek vissulega undir það sem kom fram hjá hæstv. fjmrh. að þar er atvinnulíf afar einhæft. Og ef tekin eru heil kjördæmi önnur þá er það ekki með svipuðum hætti, en vissulega háttar svo til með einstök byggðarlög að þau gætu búið við sambærilegar aðstæður og víðast hvar á Vestfjörðum.
    Ég hef komið athugasemdum þessara funda sem ég nefndi á framfæri við hæstv. forsrh., gert honum grein fyrir áliti eða afstöðu þessara funda og ég hafna því alfarið, virðulegur forseti, að sitja undir því sem hæstv. fjmrh. sagði hér áðan að þetta væri einhver sérstök þörf hjá þingmönnum annarra kjördæma að segja, eins og ég held að ég hafi skrifað orðrétt eftir hæstv. fjmrh.: ,,Get ég nú ekki fengið eitthvað fyrir mig eða eitthvað fyrir mitt kjördæmi.`` Þetta er í raun afar lágkúrulegt og ekki sæmandi af hæstv. fjmrh. að tala svona eða gera þeim, sem hafa fyrst og fremst gert athugasemdir við það að það þyrfti að grípa til aðgerða og koma til aðstoðar byggðum og atvinnulífi víðar, upp þennan hugsunarhátt að þetta sé fyrst og fremst hagsmunapot einstakra kjördæma og kjördæmaþingmanna, og þeir séu ekki að huga að ástandi og aðstæðum atvinnulífs og byggðarlaga í heild. Ég a.m.k. hafna því alfarið fyrir mína parta.
    Mig langar að vitna aðeins í máli mínu til bréfa sem lögð voru fram á þessum fundum frá m.a. Eyþingi, Sambandi sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum, og eins frá Akureyrarbæ, þar sem greint er frá viðhorfum þessara aðila til málsins. Það eru þau viðhorf sem ég er hér að flytja, hef komið á framfæri við hæstv. forsrh., og vil gera hér einnig við hæstv. fjmrh. og Alþingi. Með leyfi forseta, þá segir m.a. í bréfi frá Eyþingi:
    ,,Stjórn Eyþings minnir á þann mikla vanda sem steðjar að atvinnulífi á Norðurlandi vegna kvótaskerðingarinnar, samdráttar í iðnaði og annarra erfiðleika. Þessi vandi er í mörgum tilvikum sambærilegur við vanda byggðarlaga á Vestfjörðum. Stjórnin varar við þeirri hættu að sértækar aðgerðir sem þessar leiði til mismununar milli landshluta eða jafnvel skapi aukinn vanda í öðrum landshlutum.
    Stjórn Eyþings gerir þá kröfu til stjórnvalda að þau miði aðgerðir sínar við stöðu atvinnugreina og sveitarfélaga á landinu öllu.``
    Í bréfi og ályktun bæjarstjórnar Akureyrar kemur m.a. fram, með leyfi forseta:
    ,,Vegna þessara áforma`` --- þ.e. þeirra aðgerða sem ríkisstjórnin hafði þá boðað --- ,,er ástæða til að benda sérstaklega á mikla erfiðleika í atvinnurekstri og mikið atvinnuleysi um langan tíma víða annars staðar, m.a. á Akureyri. Þar hefur mikill samdráttur í iðnaði bitnað mjög hart á atvinnulífinu og kvótaskerðingar undanfarinna ára hafa valdið sjávarútvegsfyrirtækjum erfiðleikum þótt allra leiða hafi verið leitað til þess að auka aflaheimildir og hagræða í þeim rekstri.
    Á undanförnum árum hafa stjórnvöld ítrekað þau áform sína að standa ekki að sértækum aðgerðum eða beinum stuðningsaðgerðum við atvinnulíf eða sveitarfélög. Vegna þess m.a. hefur Akureyrarbær orðið að koma enn frekar að endurreisn og uppbyggingu atvinnulífs á þessu svæði. Stuðningur ríkisins við fyrirtæki eða sveitarfélög til þess að efla atvinnulíf með sértækum aðgerðum má ekki leiða til mismununar milli landshluta eða byggðarlaga. Aðgerðir og stuðningur stjórnvalda verður að miðast við stöðu atvinnugreina og sveitarfélaga og þess sérstaklega gætt að eðlilegur jöfnuður náist á landsvísu.``
    Hér er aftur undirstrikað það sem ég gat um í máli mínu í upphafi að sveitarfélögin hafa með einum eða öðrum hætti orðið að koma inn í málin þar sem stjórnvöld hafa alfarið hafnað því að grípa til sértækra aðgerða eða aðstoðar við einstakar atvinnugreinar eða einstök byggðarlög.
    Nú hefur ríkisstjórnin hins vegar beint því til Byggðastofnunar að gera úttekt í öðrum byggðarlögum sem búa við svipaðar aðstæður og á Vestfjörðum og fagna ég því. En ég minni á að ég tel að nauðsynlegt sé að vinna slíka aðgerð hratt. Það er nauðsynlegt að sú athugun og úttekt geti farið fram þannig að ef ástæða þykir til, sem ég efast ekki um að muni koma fram að aðrir staðir búi við svipaðar aðstæður eins og þeir sem hér á sérstaklega að aðstoða, að það sé litið til þeirra --- a.m.k. að það dragist ekki lengi að gripið sé til aðgerða sem gætu komið þeim byggðarlögum til stuðnings, að það dragist ekki lengi umfram það sem gert verður eða kanna að verða gert fyrir Vestfirði eða byggðarlög þar.
    Það verða að ríkja þessi sömu skilyrði. Ég spyr hvort hæstv. fjmrh. telji að áfram muni verða beitt þessum ströngu ákvæðum sem hér er getið um varðandi sameiningu fyrirtækja í byggðarlögum sem ætla að sameinast. Er það skynsamlegt að, eigum við að segja að þrýsta mönnum, kaupa menn til? Bæjarstjórinn í Bolungarvík hefur talað um að honum virtist sem verið sé að kaupa menn til ákveðinna aðgerða sem íbúar byggðarlaga hafa nú í frjálsum kosningum nýlega hafnað. Er það eðlilegt og réttlætanlegt að menn séu í raun neyddir til þess að ganga þá leið sem hér er sett fram og framfylgja til hins ýtrasta þeim kröfum sem hér eru gerðar um sameiningu sveitarfélaga eða byggðarlaga?
    Ég spyr t.d. um stað þar sem allir geta líklega verið sammála um að atvinnulíf sé einhæft og ekki sé um marga aðra kosti að ræða en að sækja sjó og vinna fisk, stað eins og Grímsey. Hvaða fyrirtæki eiga að sameinast þar? Hvaða byggðarlögum á það sveitarfélag að sameinast til þess að framfylgja eða fullnægja þessum skilyrðum? Eða mundi í slíkum tilvikum það vera gert að skilyrði að slíkt sveitarfélag sameinaðist hvað sem tautaði einhverjum sveitarfélögum öðrum á landi? Þannig finnst mér hér vera um óskynsamlega ströng ákvæði að ræða þó að ég geti út af fyrir sig fallist á að það sé leitað leiða til hagræðingar og til samvinnu eða samruna þar sem það á við en það sé ekki gert að svo algjöru og ófrávíkjanlegu skilyrði. ( Gripið fram í: Er ekki hægt að laga þetta?) Jú, það er auðvitað spurning um það, hæstv. forseti, af því hér er nú gripið fram í, hvort ekki væri skynsamlegt að laga þetta í meðförum þingsins og ekki er ólíklegt að það verði gert.
    Ég sé að tími minn er að renna út, virðulegur forseti, en aðeins örfá orð um samanburð á þessum aðgerðum hér og þeim aðgerðum sem gripið var til og ég nefndi aðeins í upphafi þegar Atvinnutryggingarsjóður útflutningsgreina var stofnaður árið 1988. Hæstv. fjmrh. hefur margsinnis lýst yfir, bæði hér í ræðustól áðan og eins í fjölmiðlum að nú sé farið með allt öðrum hætti fram og þetta séu ekkert sambærilegar aðgerðir við það sem áður hefur verið gert. Ég held nefnilega að ef þetta frv. og þau lög eru skoðuð saman þá sé margt líkt með skyldum enda er hér um mjög skyldar aðgerðir að ræða. Þar var ákveðið að leggja til 1 milljarð kr. í stofnfé þessa sjóðs, virðulegur forseti. Ég beini því til hæstv. fjmrh., hann segir að þetta séu nú litlir fjármunir, það eru þó 300 millj. kr. sem eiga að koma úr ríkissjóði samkvæmt þessu frv. í aðgerðir fyrir Vestfirði eina sér. Hvað kynni þessi tala að verða þegar upp er staðið? Í öðru lagi hafði Atvinnutryggingarsjóður heimild til þess að hafa milligöngu um skuldbreytingu. Ég man ekki betur en að getið sé um það hér í þessu frv. líka eða í greinagerð eða fylgigögnum sé gert ráð fyrir því að það verði einnig í þessum aðgerðum nú gripið til skuldbreytinga og lánalenginga sem ættu að fylgja í kjölfar þessara aðgerða. Í sambandi við Atvinnutryggingarsjóðinn var gert ráð fyrir að fyrirtæki fengju því aðeins fyrirgreiðslu að þau væru að hagræða í rekstri sínum og grípa til aðgerða sem gætu lett til ,,endurskipulagningar, hagræðingar og framleiðniaukningar`` svo ég vitni nú beint í frumvarpstextann sem ég er með fyrir framan mig. Það er nákvæmlega það sama sem á að gera samkvæmt þessu frv. sem nú er lagt fyrir okkur, virðulegur forseti. Það er því eins og hver önnur blekking, og ég veit ekki hvort það á að líkja því við einhverja afsökun eða réttlætingu hjá hæstv. fjmrh., að segja að hér sé um eitthvað allt, allt annað að ræða heldur en áður hafi verið gripið til.
    Hér er svo einu sinni enn vitnað til þess að samgöngumál og samgöngubætur séu skilyrði fyrir því að efla og styrkja byggðina og sameina sveitarfélögin og fyrirtækin. Vissulega er það rétt að samgöngubætur eru mikilvægt skilyrði fyrir því að styrkja atvinnusvæðin. En hér er ekki gert ráð fyrir neinum nýjum fjármunum í þá veru og er þá enn haldið uppi þeirri blekkingu, sem reyndar var rædd hér í fyrirspurnatíma Alþingis í gær, að sveitarfélögum, eða íbúum sveitarfélaga, eru gefin fyrirheit um stuðning við samgöngubætur ef þau vilji sameinast en síðan er ekki gert ráð fyrir neinum fjármunum til þess að standa við það fyrirheit.

    Ég ætla, virðulegur forseti, ekki að tefja framgöngu þessa máls. Mér dettur ekki í hug að hv. Alþingi muni gera það og mun verða við tilmælum hæstv. fjmrh. að afgreiða þetta frv. með hraði. En ég undirstrika að það þarf þá líka að vinna með hraði að þeirri úttekt sem gera á í öðrum sambærilegum byggðarlögum þannig að þau geti búið við sömu eða hliðstæð skilyrði og fái hliðstæða fyrirgreiðslu af hálfu opinberra aðila m.a. til þess að mismuna ekki milli byggðarlaga og til þess að skekkja ekki samkeppnisstöðu fyrirtækja sem ég held að sé líka mikilvægt að menn hugi að þegar gripið er til aðgerða eins og þeirra sem hér eru boðaðar.
    Ég vona að hæstv. ráðherra og hæstv. ríkisstjórn komist yfir þetta stílbrot sem hér er sjálfsagt verið að fremja á frjálshyggjustefnunni og muni viðurkenna með því og sé í raun að viðurkenna með því að það var og er nauðsynlegt að líta til með atvinnulífinu þegar svo háttar eins og nú blasir við.