Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 14:52:34 (5419)


[14:52]
     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Það verður nú að segjast eins og er að þetta er með kyndugri frumvörpum sem ég hef séð á Alþingi og afar einkennilega að málum staðið í alla staði. Hér er verið að leggja fram sérstakt mál til bjargar einu tilteknu kjördæmi. Ég tel rétt af því tilefni að það komi fram að þingmenn kjördæmisins hafa ekki verið hafðir með í ráðum um málatilbúnað nema það sem hæstv. ríkisstjórn kann að hafa ráðfært sig við sína eigin stjórnarþingmenn.
    Hv. 1. þm. Vestf. hefur ekki þótt vera ástæða til þess enn þá að kalla þingmenn Vestfirðinga saman til að ræða þetta mál, hvorki á síðari stigum þess né fyrri stigum þess. Þetta mál hefur verið algerlega á borði stjórnarflokkanna og er að öllu leyti á þeirra ábyrgð og unnið af þeim.
    Annað sem mér finnst einkennilegt við þetta frv. er að það er bersýnilega þannig unnið að það er skrifað aftur á bak. Það eru sett upp skilyrði sem fyrir fram útiloka ákveðna aðila og fyrir fram þar af leiðandi setja í fókus ákveðna aðila sem eiga að fá að njóta stuðnings. Það eru vond vinnubrögð, virðulegi forseti, að útbúa frv. sem mismunar ekki bara mönnum innan atvinnugreinar heldur mönnum innan atvinnugreinarinnar innan kjördæmisins með skilyrðum sem sett eru og skrifuð inn í þetta frv. Þetta er mismunafrv. og miðað við þær áherslur sem Sjálfstfl. hefur haft og viljað láta bera fram af sinni hálfu um áherslur sínar í atvinnulífi og ábyrgð manna á athöfnum sínum í atvinnulífinu þá kemur þetta vægast sagt afar mikið á óvart og mér finnst frumvarpssmíð af þessu tagi vera á mörkum hins siðlega í mismunandi aðgerðum gagnvart mönnum og fyrirtækjum. Mér þætti fróðlegt að fá rökstuðning fyrir þessu því að ekki kom það fram í máli hæstv. fjmrh. sem átti í miklum vandræðum með að lesa upp textann, hvað þá að hann reyndi að rökstyðja hvers vegna málið er svona útbúið eins og raun ber vitni.
    Maður hlýtur að spyrja: Hvernig stendur á því að þeir sem hafa staðið sig vel eiga ekki að fá neitt, en þeir sem miður hefur gengið eigi að fá peninga? Það er fyrsta spurningin. Hvernig stendur á því að þeim sem hefur tekist að reka sín fyrirtæki með tekjuafgangi við þessi erfiðu skilyrði er refsað með því að fá ekki neitt en hinum sem tekist hefur miður er verðlaunað með því að afhenda þeim peninga? Hvernig stendur á því að fyrirtæki eins og Hraðfrystihúsið í Hnífsdal er ekki talið þess virði eða þess verðugt að fá verðlaun frá ríkisstjórninni? Hvernig stendur á því að ríkisstjórnin segir núna 22. mars, mörgum mánuðum eftir að ríkisstjórnin bar undir kjósendur hvað þeir vildu um sameiningu sveitarfélaga: Þið sem ekki viljið sameinast eigið ekki að fá neitt. Þetta finnst mér jaðra við það, virðulegi forseti, að vera óheiðarlegt gagnvart fólkinu að bera upp fyrir það spurningu í lýðræðislegum kosningum, koma svo nokkrum mánuðum seinna og segja: Ja, af því að þið sögðuð annað en við vildum, þá bara sitjið þið í súpunni. Hvernig ætla stjórnarflokkarnir að réttlæta þessa framkomu gagnvart Vestfirðingum svo maður tali nú ekki um öðru landsfólki? Ég treysti mér ekki til að standa að og verja eða styðja slíkan gjörning eins og hér er lagt til. Ríkisstjórnin verður að fá að bera sinn fjanda sjálf í þessum efnum.
    Fyrir þá sem eitthvað hafa sett sig niður í atvinnurekstur þá er það öllum mönnum ljóst að afgerandi þáttur í því hvernig mönnum tekst til að reka sitt fyrirtæki er ekki hvernig sveitarfélagaskipanin er á landinu. Fyrirtækjum hefur gengið prýðilega að halda uppi samvinnu og samstarfi þvert yfir fjöll og firnindi ef því er að skipta. Það má nefna dæmið um samstarf milli fyrirtækja á Ísafirði og Þingeyri sem hefur gengið vandræðalaust og þurfti enga sameiningu sveitarfélaga til þannig að það að setja þetta skilyrði er algerlega óháð eðli máls. Þarna eru menn að blanda saman pólitísku markmiði inn í þetta mál. Það gerir gjörninginn slæman, það gerir hann svo slæman að hann er óverjandi.
    Það kann að vera markmið sem ég get tekið undir, alla vega rökrætt við menn, hvort það eigi að stuðla að því að stækka fyrirtæki. Það getur verið réttlætanlegt markmið. En þá eiga menn að taka aðgerðir sem gera það en ekki óskyldar aðgerðir eins og sameiningu sveitarfélaga. Hún hefur ekkert með málið að gera. Og ef menn ætla að ræða þetta mál á einhverjum vitrænum forsendum, þá verður ríkisstjórnin fyrir það fyrsta að taka þennan þátt út úr málinu því að hún blandar saman óskyldum atriðum. Hún gæti þess vegna sett önnur pólitísk skilyrði inn í frv. eins og t.d. um sameiningu sparisjóða, sameiningu hafna eða að menn séu í ákveðnum flokki til að fá aðstoð. Það vantar ekki mikið upp á að það gæti gengið í þessu frv. Ég get t.d. ekki, virðulegur fjmrh., ef ég reyni að skoða þetta frv., ímyndað mér hverjir ættu að fá þessa peninga. Ég get bara ekki ímyndað mér að Sambandsfyrirtækin komi til greina. Getur það verið

að menn hafi sett forskriftina þannig niður að Sambandsfyrirtæki eigi að vera út undan? Ég vil ekki trúa því. En hæstv. fjmrh. verður þá að koma hér upp og sýna okkur fram á það hvernig fyrirtæki eins og á Hólmavík og Þingeyri eigi að geta komið til greina. Ef hann getur það ekki, þá er hann í erfiðri stöðu.
    En ég vil nú almennt segja um þessa ofurtrú manna á sameiningu hluta og hagkvæmni stærðarinnar að það er samt staðreynd sem ég hygg að menn deili ekki um að vaxtarbroddurinn, ekki bara hér á landi heldur í Evrópu líka, liggur í litlum fyrirtækjum. Hann liggur í framtaki einstaklingsins þar sem hann vinnur á gólfinu en ekki í stórum fyrirtækjum þannig að ef menn vildu gera aðgerðir sem styrktu atvinnulífið, fengju fleiri til þess að taka þátt í því og búa til störf, þá ættu menn að stuðla að vexti á þessu sviði en ekki með því að skella öllu saman í eina súpu. Ég hef ákveðnar efasemdir um að það sé yfir höfuð skynsamleg aðgerð. Ég held að það ætti að láta atvinnulífinu sjálfu það eftir að ákvarða það því að menn sem reka fyrirtæki gera það sem er hagkvæmt eða a.m.k. eiga menn að treysta þeim til þess. Ef þeir komast að þeirri niðurstöðu að það sé hagkvæmt að sameina fyrirtæki, þá gera þeir það. Menn komust að þeirri niðurstöðu að búa til sérstakt fyrirtæki um samstarf á útgerð togara milli Þingeyrar og Ísafjarðar af því að það var mönnum nauðsynlegt og menn töldu sér ávinning af því samstarfi. Það komst þar á og þurfti enga lagagrein til, þurfti ekkert að segja mönnum það í lögum hvernig þeir eiga að haga sér í viðskiptalífinu. Ég held að það sé ástæða til að minna hæstv. fjmrh. á að það er ekki endilega skynsamlegasta ráðstöfun peninga að nota þá til að borga ógreidda reikninga. Ég get ekki fundið það út að það sé skynsamlegt eða æskilegt að nota fé af þessu tagi til þess að borga þegar tilfallinn kostnað sem liggur sem ógreiddir reikningar einhvers staðar á skrifborði. Hvað styrkir það mikið atvinnulífið? Hver er nýsköpunin í því? Þeir sem eru í atvinnurekstri eru það á eigin ábyrgð. Þeir tóku ákvarðanir að reka sín fyrirtæki þrátt fyrir taprekstur og þeir verða að bera ábyrgð á sínum ákvörðunum. Það er kallað pilsfaldakapítalismi þegar menn kalla á ríkið til að borga tapið. Þetta þýðir að það er verið að segja við þau fyrirtæki, sem aðlöguðu sig skilyrðunum og hafa rekið sig réttu megin við núllið: Þið gerðuð vitleysu. --- Hvernig má það vera að það styrki atvinnulífið að koma mönnum upp á það að það sé í lagi að aðlaga sig ekki þeim skilyrðum sem eru fyrir hendi í atvinnugreininni? Hvort sem menn eru sáttir við skilyrðin eða ekki er allt annað mál.
    Ég hef komið nálægt fyrirtæki þar sem menn hafa lagt sig fram um það að reyna að reka það ekki með tapi af því að menn hafa ekki efni á því að tapa, menn verða að vera ofan á. Það hefur auðvitað verið erfitt en mönnum hefur tekist það og á þá að vera að segja við þá sem það hafa gert: Þá skuluð þið bara sjá um þetta sjálfir. En hinir, sem fóru út í rekstur, tóku þá ákvörðun og hafa rekið fyrirtækið mánuðum saman, jafnvel með tapi, eiga þeir svo að geta labbað til Friðriks Sophussonar, hæstv. fjmrh., og sagt: Þú borgar fyrir mig reikningana. --- Ég er ekki viss um að það sé skynsamlegasta aðgerðin að hafa þennan háttinn á, að koma mönnum upp á þetta.
    Það sem ég tel að ætti að gera er að menn eiga sem stjórnvald að aðhafast það sem kemur jafnt við alla eða gefur mönnum sömu skilyrðin. Það sem stjórnvöldum hefur mistekist á undanförnum árum er að þau hafa dreift skerðingunni á þorskinum ójafnt. Fyrirtæki hafa orðið fyrir ójafnri skerðingu vegna ákvarðana ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnin á því að jafna út þá skerðingu og átti auðvitað strax í upphafi að gera það þannig með því að fara inn í kvótakerfið og jafna skerðinguna þannig að það bæru allir það sama í þorskígildum talið. Það gerði hún ekki. Og það sem hún á að gera er fyrst að jafna þetta.
    Í öðru lagi á að mínu viti að grípa til almennra aðgerða sem frysta afborganir og jafnvel vexti af skuldum til móts við það sem stjórnvöld eru að draga úr tekjum fyrirtækja með sínum ákvörðunum. Þegar stjórnvöld taka ákvörðun um aflahámark sem leiðir af sér að vera ákvörðun um tekjur í fyrirtækjum, þá er eðlilegt að stjórnvöld taki á sama hátt ákvarðanir um útgjöldin. En mér finnst það ekki skynsamlegt að vinda málið í þennan búning og nefna það Vestfjörðunum. Það er ekki skynsamlegt fyrir málið og það er ekki skynsamlegt fyrir Vestfirði. Þetta á að vera almenn aðgerð sem kemur sem öllum stendur til boða með sama hætti sem hafa orðið fyrir sams konar skerðingu vegna ákvarðana stjórnvalda.
    Þetta tel ég að menn hefðu átt að gera en ég tel líka að stjórnvöld verði að huga mjög alvarlega að því að endurskoða ákvörðun um þorskafla. Allar mínar athuganir á þessu máli hafa leitt til þess sama, að menn verða líka að taka til endurskoðunar ákvörðun um þorskaflahámark ársins. Ég sé ekki að menn komist í gegnum þetta mál með skaplegum hætti án þess að hækka leyfilegan þorskafla. En það er auðvitað ákaflega erfitt að bera fram þá kröfu og ég hef látið það vera, stillt mig um það að hlaupa eftir öðrum sem eru sporléttir og gert kröfu um stórfellda aukningu á þorskveiðum. Hins vegar er mér það ljóst að fiskifræðin er ekki það nákvæm vísindi að það sé hundrað í hættunni eða einhver verulegur munur á hvort menn tala um 165 þúsund tonn eða 175 þúsund tonn. 10 þúsund tonn til eða frá í þessu tölfræðilega mati er ekki stór áhætta þannig að ég gæti alveg talið það eðlilegt eða a.m.k. ekki mikla áherslu fólgna í því að menn taki 10--15 þús. tonn og útdeildu þeim eftir tilteknum leikreglum sem þyrftu ekki að vera og ættu ekki að vera þær sem nú gilda í kvótakerfinu. Þetta er það sem ég hefði talið eðlilegast að gera í stöðunni og talið að kæmi mönnum betur heldur en þessar aðgerðir sem því miður bera það ekki með sér, eða ég sé það ekki, að menn hafi haft þann vilja að öllum standi sama aðgerð til boða. Mér finnst þetta frv. vera þannig skrifað að það er fyrir suma en ekki aðra. Og það er þessi höfuðgalli á þessu máli.
    Ég tel, virðulegi forseti, ekki þörf á að útlista frekar efnisatriði eða skoðun mína til þeirra í þessu frv. en ég vil ljúka umfjöllun minni með því að nefna það sem er fskj. II með þessu frv. og hluti af aðgerðunum, en það eru aðgerðir um útdeilingu fjár úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Ég vil fyrir það fyrsta segja

að það stendur í stjórnarskrá Íslands að málefnum sveitarfélaga eigi að skipa með lögum og ég tel ekki að það standist stjórnarskrána að skipa málefnum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga með þeim hætti sem gert er í dag, að það er að fullu og öllu á valdi félmrh. að ákvarða hvernig því fé er útdeilt og hvernig þær reglur eru sem notaðar eru til að deila út eftir. Ég tel að þær aðgerðir, sem þarna eru dregnar upp varðandi Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, standist ekki jafnræðisreglu sem menn voru þó að lögfesta í stjórnsýslulögunum um síðustu áramót. Eða hvernig á það að standast jafnræðisreglu gagnvart sveitarfélögum að taka peninga af þeim öllum og láta sum hafa eitthvað til baka eftir skilyrðum sem ráðherrann ákveður? Svo gæti komið annar ráðherra og ákveðið einhver önnur skilyrði og látið önnur sveitarfélög fá. Þetta gengur ekki upp. Þetta er bara gjörsamlega ómögulegt. Ég tel að þetta standist ekki stjórnarskrá. Menn kunna að hafa aðra skoðun á því. Ég skal ekki deila við menn um það, það eru þá bara ólíkar skoðanir, en ég tel það alla vega ekki boðlegt af hálfu stjórnvalda að skipa málum eins og þarna er gert ráð fyrir. Það er hrein mismunun sem á ekki að eiga sér stað. Og ég tel að hæstv. félmrh. ætti að koma hér og gera grein fyrir því hvernig þessar reglur eru ákvarðaðar, af hverju á að verja 220 millj. til sveitarfélaga sem samþykkja að sameinast eftir tilteknu bráðabirgðaákvæði en bara 80 millj. til sveitarfélaga sem ætla að sameinast eftir almennum ákvæðum laganna. Hvernig finna menn út þessar skiptitölur? Af hverju er það misjafnt? Er ekki sami ávinningurinn af málinu? Eða eiga menn að fá bónus af því að þeir segja já þegar ráðherrarnn vill að menn segi já? Svo er þeim refsað ef þeir segja já dálítið seinna. Þá fá þeir minna. Ég ætla ekkert að halda því fram svo sem en ég spyr því óneitanlega sækja á mann ýmsar hugrenningar þegar maður les svona gjörninga.
    Hvaða reglur eiga að gilda um skiptingu þessara peninga? Það kom ekki hér fram. Eiga sveitarfélög, sem eru búin að setja á annað hundrað milljónir króna í atvinnulífið á undanförnum fjórum árum, ekki að fá neitt? En önnur sveitarfélög sem hafa safnað skuldum út af einhverju öðru en þátttöku í atvinnulífinu, slæmri stjórn eða eitthvað slíkt, eiga að fá fullt af peningum. Þannig er málið kynnt í dag. Svo kalla menn sig jafnaðarmenn. Ég spyr bara, hvaða jafnaðarmenn?
    Virðulegi forseti. Ég vil að lokum skora á hæstv. félmrh. að gera grein fyrir hliðarráðstöfunum sem fylgja þessu frv. en eru ekki eiginlegur partur af því, þ.e. aðgerðir til að jafna skuldastöðu sveitarfélaga vegna sameiningar. Læt ég þá lokið umfjöllun um þetta mál að sinni.