Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 15:12:35 (5420)


[15:12]
     Matthías Bjarnason (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. 5. þm. Vestf. kvartaði undan því að enginn fundur hefði verið haldinn um þetta mál í þingmannahópi Vestfirðinga. Það hefur enginn fundur verið haldinn um þetta mál í þingmannahópi Vestfirðinga. Það hafa verið haldnir margir fundir um þetta og stöðu Vestfjarða í stjórn Byggðastofnunar. Þar eiga allir flokkarnir fulltrúa nema Kvennalistinn. Byggðastofnun skrifaði ítarlegt bréf 16. nóv. 1993, sem allir stjórnarmenn Byggðastofnunar standa að, til forsrh. um þessi mál. Alþb. á sinn fulltrúa í stjórn Byggðastofnunar. Ég er undrandi á viðbrögðum þingmanns Vestfirðinga við þessu máli. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi að breyta 2. gr. og hún eigi bara að vera örstutt: Byggðastofnun er heimilt að veita sjávarútvegsfyrirtækjum, sem ætla að sameinast, víkjandi lán.
    Svo ætla ég að minna þennan hv. þm. og fleiri á að þetta er ekki fyrsta sérstæða aðgerðin sem hefur verið gerð. Á meðan Byggðastofnun t.d. hafði úr miklu meira að spila voru tekin mál af ekki minni stærðargráðu en þetta frv. gerir ráð fyrir fyrir einstaka staði annars staðar á landinu sem þurftu þá á því að halda. Menn geta ekki talað þannig eins og hvergi hafi verið gert neitt annars staðar.
    Þetta bið ég þennan hv. þm. að hugleiða. Um þetta mál hefur verið fjallað í þeirri stofnun sem fulltrúar allra nema eins flokks eiga sæti.