Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 15:17:41 (5424)


[15:17]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það er nokkuð um liðið frá því að fréttir komu um það í fjölmiðlum að nú hygðist ríkisstjórnin veita 500 millj. kr. til bjargar atvinnulífi á Vestfjörðum. Af því áttu 300 millj. að fara til atvinnufyrirtækja og 200 millj. til sveitarfélaga sem væru að sameinast.
    Um það vil ég segja þetta: Það er ekki um það deilt að ástandið á Vestfjörðum er alvarlegt. Líklega alvarlegast á suðurfjörðum Vestfjarða. Að tala um Vestfirði sem heild er þó í raun ekki rétt. Staða einstakra fyrirtækja er mjög erfið og sums staðar eru þau fyrirtæki burðarás atvinnulífsins eins og gjarnan er í sjávarplássum. Margoft hefur verið nefnd sérstaða Vestfjarða vegna þorskveiðiskerðingar og þær tölur sem þar hafa verið nefndar eru allrar athygli verðar. Starfshópur hefur látið vinna sérstaka úttekt á þessum málum og fylgir sú úttekt með frv. Í niðurstöðu starfshópsins er bent á að hlutur sjávarútvegs í atvinnustarfsemi á Vestfjörðum er þrefalt meiri en landsmeðaltalið. En við skulum samt gera okkur grein fyrir því að hér er ekki verið að tala um að dæla einhverju fjármagni til Vestfjarða eða atvinnufyrirtækjanna þar beinlínis. Þeir peningar sem hér er um að ræða fara beina leið í bankana til að koma til móts við kröfur þeirra. Fyrirtækin hafa ekki getað staðið við sínar skuldbindingar þar sem tekjur þeirra eru skertar svo mjög og ekki síst af stjórnvaldsástæðum. Það má í raun og veru segja að hér sé um stuðningsaðgerðir við bankastofnanir og fjármálastofnanir að ræða.
    Það eru stjórnvöld sem ákveða skerðingu veiðiheimilda og þar af leiðandi ætti það líka að vera þeirra sömu stjórnvalda að taka á sig þá ábyrgð sem því fylgir. Það er því rökrétt að það sé allt þjóðfélagið sem verður að bera þann samdrátt í tekjum sem leiðir af þeirri fiskveiðistjórnun sem fylgt er. Það er líka jafnvíst að víðar en á Vestfjörðum þarf að aðstoða atvinnufyrirtæki vegna þessa. Hins vegar er líka rétt að leggja áherslu á að hér er um víkjandi lán að ræða, ekki framlag. En það finnst mér aftur á móti hafa verið mjög áberandi í umræðunni.
    Hins vegar hef ég ýmislegt að athuga við það hvernig á að standa að þessum aðgerðum af hálfu ríkisstjórnarinnar.
    Í fyrsta lagi er lánveitingin bundin við sjávarútvegsfyrirtæki sem vilja sameinast og jafnframt, eins og segir í 2. gr., að sveitarfélagið þar sem fyrirtæki er sé að sameinast öðru sveitarfélagi. Reyndar upplýsti hv. 1. þm. Vestf. rétt áðan að hann hygðist fá breytingu fram á þeirri grein. Ef þetta yrði eins og stendur í greininni er verið að beita þvingunaraðgerðum til sameiningar fyrirtækja og til sameiningar sveitarfélaga. Það er reyndar merkilegt að þetta skuli vera sett fram af ríkisstjórn sem telur sig vera málsvara frelsis í sinni ýtrustu mynd.
    Ef við ræðum um hvernig sjávarútvegsfyrirtæki eigi að sameinast og jafnframt vera í því sveitarfélagi sem ætlar að sameinast öðru þá er hægt að taka eitt ,,konkret`` dæmi. Geta sjávarútvegsfyrirtæki ráðið því hvort sveitarfélag sem það er staðsett í sameinast öðru? Það er dálítið furðulegt að halda því fram vegna þess að það hlýtur að vera sveitarstjórnin sem hefur með það að gera, ekki stjórn fyrirtækisins. Hver segir að það bæti stöðu fyrirtækisins þó svo yrði? Þetta dæmi sem ég er með er Súðavík. Þar er eitt fyrirtæki, sem heitir Frosti hf., sem hefur reyndar unnið allmikið bæði í hagræðingarmálum og eins konar sameiningarmálum þar sem það tók að sér að ásamt Norðurtanganum á Ísafirði að útvega fólki og fyrirtækjum á Suðureyri hráefni. Fyrirtækin keyptu togarann af Suðureyri en skuldbundu sig jafnframt til þess að útvega hráefni til Suðureyrar. Það fór samt ekki fram nein sameining þessara fyrirtækja, aðeins samvinna.
    Í þessu sveitarfélagi eru hafnar umræður um sameiningu þriggja hreppa, Súðavíkurhrepps, Ögurhrepps og Reykjafjarðarhrepps í Djúpi. Í báðum þeim hreppum sem eru að ræða um að sameinast Súðavíkurhreppi eru svona 60--70 manns samanlagt. Þetta er dreifð byggð sem tekur yfir líklega upp undir 200

km svæði. Það getur ekki bætt stöðu þessa fyrirtækis í Súðavík þó þessir hreppar sameinist. Og það er ekkert annað sjávarútvegsfyrirtæki í hinum tveimur hreppunum sem þetta sjávarútvegsfyrirtæki getur sameinast. Það er því hvorki um það að ræða að þetta fyrirtæki geti sameinast öðru fyrirtæki hvorki í sínu sveitarfélagi né í hinum tveimur, sem hugsanlega sameinast, né heldur að það verði til neinnar sérstakrar hagræðingar eða bæti stöðu fyrirtækisins þó svo að sveitarfélögin sameinist.
    Ég tel að hér sé verið að beita þvingunaraðgerðum til sameiningar sveitarfélaga. Og ég vona svo sannarlega að þetta ákvæði verði tekið út.
    Í öðu lagi á sá starfshópur sem á að gera tillögu um afgreiðslu á lánsumsóknum viðkomandi fyrirtækja að vera skipaður af forsrh. Í honum eiga að vera m.a. fulltrúar frá Byggðastofnun, forsrn., fjmrn. og félmrn. Það er enginn fulltrúi frá sjútvrn. þó það séu sjávarútvegsfyrirtæki sem eiga að sameinast og sem á að aðstoða. Og það er enginn fulltrúi frá heimamönnum. Það hefði kannski verið eðlilegt að í starfshópnum væri fulltrúi t.d. frá Fjórðungssambandi Vestfirðinga sem ætti að hafa yfirsýn yfir stöðu sveitarfélaganna á Vestfjörðum og jafnframt yfirsýn yfir stöðu atvinnulífsins á Vestfjörðum. Það er ekki langt síðan að fundað var með stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga og þingmönnum til þess einmitt að ræða atvinnumál fjórðungsins í heild.
    Í þeim starfshópi sem ríkisstjórnin skipaði á sínum tíma til að fjalla um bráðavanda atvinnulífs á Vestfjörðum var fulltrúi frá sjútvrn. en hæstv. sjútvrh. er ekki einu sinni viðstaddur umræðuna hér í dag.
    Síðan á að gera tillögur til þessa starfshóps. Starfshópurinn fjallar um málið og fær til þess ráðgjafa. Síðan á starfshópurinn að skila tillögum til Byggðastofnunar. Byggðastofnun á að fjalla um þær og skila tillögum til ríkisstjórnarinnar. Mér sýnist að þetta geti verið nokkuð þungt í vöfum. Ég spyr hvort ekki sé hægt að hafa þetta þannig að það virkaði ekki svona þungt.
    Það er jákvætt að starfshópurinn skuli eiga að stuðla að endurskipulagningu fyrirtækjanna. Ég hygg að flest sjávarútvegsfyrirtæki hafi verið að endurskoða og endurskipuleggja rekstur sinn en það má eflaust alltaf gera betur. Ég minni þó á að framleiðni í sjávarútvegi almennt á Íslandi hefur verið mjög góð, jafnvel á þeim samdráttartímum sem gengið hafa yfir. Framleiðni hefur aukist og það bendir til að menn séu alltaf að endurskipuleggja og skoða þessa þætti.
    Þá tel ég að þær 15 millj. kr., sem heimilt er samkvæmt frv. að veita til að styðja við nýjungar í atvinnulífi á þessu svæði, sé allt of lág upphæð. Ég hefði viljað hafa stærri hluta af þessum lánum til nýsköpunar sem hefði hugsanlega getað leitt af sér meiri breidd í atvinnulífinu. Það er alkunna að erfiðleikar þeir sem nú steðja að Vestfjörðum eru m.a. og ekki síst vegna einhæfni í atvinnulífi. Það eru ýmsir möguleikar á nýjum atvinnutækifærum, t.d. horfa menn í vaxandi mæli til ferðaþjónustu sem vaxtarbrodds í atvinnulífi eins og raunar annars staðar á landinu. Sú sérstaða er þó á Vestfjörðum að þar er svo til óplægður akur í þeim málum. Vestfirðir hafa nánast ekki verið á kortinu þegar rætt hefur verið um ferðamál og skipulagningu ferðamála hér á landi. Hin stórbrotna náttúra er mikil auðlind sem nýta má til ferðaiðnaðar af ýmsum toga.
    Þá hefur einnig lítið verið um starfrækslu smærri iðnfyrirtækja nema þeirra sem hafa byggt á þjónustu við sjávarútveginn. T.d. eru lítið notaðir þeir möguleikar sem jarðhiti á svæðinu býður upp á, bæði í ræktun blóma og grænmetis. Þá ættu að vera möguleikar á fiskirækt í okkar djúpu fjörðum ekkert síður en t.d. í Noregi.
    Fleira mætti nefna sem ástæða væri til að gefa gaum í nýsköpun. En þar er erfitt að fá fjármagn til að byrja og það á auðvitað við bæði fleira fólk og fleiri staði en Vestfirði.
    Virðulegi forseti. Ég tel að sú hugsun sem kemur fram í frv. sé að bæta úr til skamms tíma. Hvort það hefur einhver jákvæð áhrif til lengri tíma litið efast ég um. Til þess gengur það of skammt. Ég verð þó að viðurkenna að ég met þá viðleitni sem ríkisstjórnin sýnir með þessu til að standa ábyrg gerða sinna í fiskveiðistjórnunarmálum. En ég tel að það sem þurfi í þessari stöðu til bjargar atvinnulífi á Vestfjörðum séu auknar veiðiheimildir eða hreinlega að kaupa fisk til vinnslu á svæðið. Á því er ekki tekið með þessu frv. og eins og ég sagði áðan, og ég vil leggja áherslu á það, fara þessir fjármunir fyrst og fremst til að þagga niður í lánastofnunum um einhvern tíma.