Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 16:02:58 (5430)


[16:02]
     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég hlýt að lýsa yfir furðu minni á því að svo þingvanur maður sem hv. 1. þm. Vestf. hlýtur að teljast skuli vera að ræða hér um mál sem löngu er búið að fjalla um, þ.e. nefndarskipun til að kanna útlánatöp hjá bönkum og sparisjóðum og fjárfestingarlánasjóðum því að þingmanninum hefði auðvitað verið í lófa lagið að taka til máls í þeirri umræðu ef hann hefði óskað þess. Við erum ekki hér að ræða um það að kanna útlánatöp. Við erum kannski miklu frekar að ræða um það í dag að reyna að koma í veg fyrir útlánatöp í framtíðinni. Og að gera lítið úr slíkri könnun er náttúrlega mjög sérkennilegt þegar til þess er litið að það hafa verið afskrifaðir 40 milljarðar á undanförnum fimm árum í bönkum, sparisjóðum og hjá fjárfestingarlánasjóðum. Það hafa verið afskrifaðir um 10 milljarðar í fiskeldinu. Þetta eru auðvitað gífurlegir fjármunir og það er full ástæða til þess að kanna hvernig á þessu stendur. Könnunin ein og sér getur ekki verið skaðleg og enginn er sekur fyrr en sekt hans er sönnuð, þar til eru menn saklausir.
    10 milljarðar sem hafa verið afskrifaðir í fiskeldinu hafa m.a. verið afskrifaðir vegna þess að það var ekki kannað nógu vel þegar farið var út í fjárfestinguna í fiskeldinu hversu arðbært þetta væri og það var ekki búið að gera þær rannsóknir sem þurfti að gera. Og þetta var gert þrátt fyrir að framkvæmdastjóri Rannsóknaráðs ríkisins, Vilhjálmur Lúðvíksson, varaði við því þegar árið 1985 að farið væri út í alla þessa fjárfestingu og sagði þá m.a., með leyfi forseta:
    ,,Því miður er það svo að þau atvinnutækifæri sem menn tala mest um, t.d. á sviði líftækni og fiskeldis, eru að miklu leyti enn þá óundirbyggð að því er rannsóknir varðar og hafa þegar orðið af því stórfelld skakkaföll. Ég óttast að á næsta leiti sé alda fjárfestinga í fiskeldi sem að miklu leyti verður byggð á sandi.``
    Þetta sagði hann 1985 og samt héldu menn áfram að fjárfesta í fiskeldinu. Nú er hins vegar búið að afskrifa þessa 10 milljarða en þarna er þessi fjárfesting og það er auðvitað fáránlegt annað en að nýta hana og þess vegna tek ég fyllilega undir það með þeim sem hér hafa sagt að við eigum auðvitað að horfa á fiskeldið sem möguleika.