Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 16:05:22 (5431)

[16:05]
     Matthías Bjarnason (andsvar) :

    Virðulegi forseti. Það væri gaman að vita hver það hefði verið sem hefði getað upplýst 1985 að verð á eldislaxi í heiminum mundi hrapa úr 100 niður í 27--28 á fimm árum. Það væri gaman að fá upplýsingar um það. Og hver hefði þá getað komið í veg fyrir þetta?
    Ef við ættum að taka töpin eftir fyrra stríðið af síldarsöltun þá hefðum við aldrei átt að halda síldveiðum áfram og síldarsöltun því það fór hver einasti maður á hausinn þegar verðhrunið varð. Þetta vil ég biðja hv. þm. Kvennalistans að hafa í huga.
    Svo er nú eitt: Kvennalistinn átti fulltrúa í stjórn þeirrar stofnunar sem mest hefur tapað á sl. fjórum árum. Kvennalistinn hefur því getað fylgst mjög nákvæmlega með hvað var að gerast. Hvar var sérstaða Kvennalistans þá?