Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 16:27:06 (5434)


[16:27]
     Ragnar Arnalds :
     Virðulegi forseti. Ég á sæti í stjórn Byggðastofnunar og ég vil strax taka það fram vegna þeirra umræðna sem fóru fram fyrr á fundinum um þátt Byggðastofnunar í þessu máli að stjórn Byggðastofnunar hefur hvergi komið nærri samningu þessa frv. Hún hefur ekki verið spurð álits um efni þess og á engan þátt í samningu þess. Ég tel því að sjálfsögu mjög fráleitt að vísa á stjórn Byggðastofnunar þegar kvartað er yfir því hér í umræðunum að þingmenn Vestfirðinga hafi ekki verið hafðir með í ráðum við undirbúning þessa máls. Stjórn Byggðastofnunar fékk ekki einu sinni upplýsingar um það hvað ætti að standa í frv., hvað þá meira. Ég er sannfærður um það að þetta frv. væri ekki eins stórgallað að efni og umgjörð og raun ber vitni ef frv. hefði verið sýnt í stjórn Byggðastofnunar og þar hefði verið tækifæri til þess að koma ábendingum á framfæri.
    Staða sjávarútvegs á Vestfjörðum var veik og það er þörf aðgerða í málefnum sjávarútvegsfyrirtækja þar. Það er réttlætanlegt að grípa til sérstakra aðgerða af því tilefni. Og að því leyti er hér um jákvætt mál að ræða. En Byggðastofnun kom að þessu máli þannig að ríkisstjórnin óskaði eftir því að stofnunin gerði úttekt á stöðu sjávarútvegs á Vestfjörðum og eftir að sú úttekt hafði verið gerð, þá kom fram af hálfu Byggðastofnunar og stjórnar hennar tillaga um það að veitt yrði 300 millj. kr. til stuðnings sjávarútvegi á Vestfjörðum án þess að það væri á nokkurn hátt frekar skýrgreint hvernig sá stuðningur yrði veittur eða í hvaða formi það yrði og með hvaða skilyrðum. Ég tók það fram þá þegar að ég teldi sjálfgefið að stuðningur við sjávarútveg á Vestfjörðum yrði ekki látinn standa einn og sér heldur hlytu í kjölfarið að fylgja aðgerðir í þágu annarra landshluta. Og ég tel að þannig hefði þurft að undirbúa málið áður en það kom hér inn í hv. Alþingi.
    Menn ræða um það hvort sértækar aðgerðir eigi rétt á sér almennt og ég segi það sem mína skoðun að ég tel að sértækar aðgerðir í atvinnumálum eigi oft rétt á sér, tvímælalaust. En ég tek það fram að þær mega ekki koma í veg fyrir það að gripið sé til almennra aðgerða í þágu viðkomandi atvinnugreinar. Auðvitað eru sértækar aðgerðir nokkurs konar undantekningarregla frá almennu reglunni sem gripið er til einkum og sér í lagi til að koma í veg fyrir fjöldagjaldþrot í viðkomandi grein. Ég nefni bara sem dæmi að auðvitað átti fyrir löngu að grípa til sértækra aðgerða í þágu skipasmíðaiðnaðarins í landinu og alveg sjálfsagt mál. Það er þörf á því að grípa til sértækra aðgerða til stuðnings nýjungum í íslensku atvinnulífi. Ýmsar atvinnugreinar eins og ígulkeravinnsla hafa verið að ryðja sér braut en hafa átt við ramman reip að draga vegna þess að þar hefur verið um að ræða mikinn rannsókna- og þróunarkostnað, eins og gjarnan er í nýjum atvinnugreinum, sem enginn hefur verið reiðubúinn að greiða nema fyrirtækin sjálf. Í ígulkeravinnslu eru feikilegir möguleikar eins og hefur sýnt sig víða um land þar sem hvert fyrirtækið hefur tekið í sína þjónustu tugi starfsmanna. En alls staðar er sömu sögu að segja, öll þessi fyrirtæki berjast í bökkum og mikil spurning hvort þau lifa það af. Þarna er einmitt svið þar sem sannarlega væri þörf á sértækum aðgerðum, aðgerðum sem ekki væru bundnar við einn landshluta. Að sjálfsögðu yrði það að vera aðgerð sem snerti allt landið en sértækar aðgerðir væru þær samt af því að þær snerta ekki önnur sjávarútvegsfyrirtæki, ekki sams konar aðgerðir og kannski er þörf gagnvart t.d. þessu sérstaka sviði sem ég núna nefndi.
    Í öðru lagi tel ég að þegar um sértækar aðgerðir er að ræða þá megi ekki koma til neins konar miðstýring beint úr Stjórnarráðinu eða frá skrifborði einstakra ráðherra. Það eru vinnubrögð sem verður að fordæma og koma aldrei til greina nema hjá ráðherrum sem haldnir eru alveg sérstakri miðstýringaráráttu eins og virðist gilda um núverandi ríkisstjórn. ( EgJ: Nei.) Jú, það má svo sannarlega segja það, hv. þm. Egill Jónsson. Við sáum það t.d. í stjórn Byggðastofnunar þegar núv. ríkisstjórn var að reyna að þröngva upp á stjórn Byggðastofnunar að það yrði farið að skipta landinu í svæði þar sem voru annars vegar fyrsta flokks svæði og hins vegar annars flokks svæði, jaðarsvæði annars vegar og hins vegar sérstök þróunarsvæði. ( Gripið fram í: Vaxtarsvæði.) Vaxtarsvæði. Það var miðstýringarárátta núv. ríkisstjórnar og sem betur fer stóðum við saman við saman, við hv. þm. Egill Jónsson, um það að vísa slíkri áráttu á bug. ( StG: Hvað segir í 3. gr. frv.?) Það er einmitt það sem ég ætla að víkja að hér á eftir. Að sjálfsögðu er mjög ankannaleg og hættuleg miðstýringarárátta einmitt í þessu frv. og það kemur ekki svo mjög á óvart úr því að frv. kemur beint úr skúffu hæstv. ríkisstjórnar.
    Ég tel að sértækar aðgerðir megi sem sagt ekki vera á nokkurn hátt tengdar miðstýringu úr Stjórnarráðinu og ekki bundnar við einn landshluta. Það má ekki setja slíkum aðgerðum óeðlileg skilyrði sem ekki koma málinu við eins og gert er í frv.
    Ég vil því láta það koma strax fram að ég tel það vera meginágalla frv. að það skuli ekki miðast við landið í heild sinni, auk þess sem upphæðirnar sem þar er um að ræða eru svo smávaxnar að þær munu gera fjarskalega lítið gagn og þyrftu þær að vera verulega hærri þegar allt landið væri haft í sigti.
    Því miður verður það að segjast eins og er að það er ákaflega ljótur svipur á margri þeirri hugsun sem í þessu frv. felst. Og þá komum við að 2. og 3. gr. frv. þar sem fjallað er um hvernig þessum stuðningi verði háttað. Ég tel það ljótan svip á málatilbúnaði þegar ríkisstjórn ákveður að veita 300 millj. kr. í atvinnulífið og ætlar að fela það fjórum kommissörum, einum úr hverju þriggja ráðuneyta, forsætis-, fjármála- og félagsmálaráðuneyti, ásamt einum manni frá Byggðastofnun og að þessir kommissarar eigi að vera með puttana í því hvernig þessu fjármagni verði ráðstafað. Það er ljótur svipur á þessu.
    Ég tel að það eigi að vera föst regla að ráðherrar séu yfir það hafnir að vera með fingurna í úthlutun fjármagns til atvinnulífsins. Það ætti að vera föst siðaregla í íslenskum stjórnmálum. Ég undrast það mjög að menn skuli ekki hafa lært af liðinni tíð að útiloka slíkt með öllu.
    Eins og menn sjá af frv. þá eru afskipti Byggðastofnunar algjört formsatriði. Henni er aðeins ætlað að taka við fjármagninu og úthluta því eftir því sem kommissarar ríkisstjórnarinnar ákveða. Stjórn Byggðastofnunar hefur að vísu neitunarvald en hún getur ekkert frumkvæði haft og hefur lítið með það að segja hvernig þessum lánum verður úthlutað. Það kemur því nokkuð af sjálfu sér að það eru kommissararnir sem eiga að ráða í þessu máli og þá tel ég langbest að halda Byggðastofnun algjörlega utan við þetta mál.
    Sú hugsun sem kemur fram í 2. gr. er ákaflega varhugaverð. Þar segir, með leyfi forseta: ,,Þar sem sveitarfélög verða sameinuð á Vestfjörðum er Byggðastofnun heimilt að veita sjávarútvegsfyrirtækjum, sem ætla að sameinast, víkjandi lán. Sama gildir um þau sjávarútvegsfyrirtæki á Vestfjörðum sem hafa sameinast á síðustu þremur árum.``
    Hér kemur þessi miðstýringarárátta mjög skýrlega fram. Ef þið sem ætlið að taka þetta lán gerið ekki þetta og hitt, ef þið sameinist ekki öðrum og ef þið eruð ekki staðsettir í sveitarfélögum sem hugsa í sameiningarmálum með svipuðum hætti og ríkisstjórnin gerir, þá fáið þið ekki neitt. Það á sem sagt ekki að spyrja að því hvort verið er að taka skynsamlegar og rökstuddar ákvarðanir. Það á að spyrja að því hvort stefna viðkomandi sveitarfélags í sínum málefnum er að óskum núverandi ríkisstjórnar.
    Auðvitað er sameining fyrirtækja oft og tíðum gagnleg en það er alls ekkert einhlítt að það sé gagnlegt að sameina fyrirtæki. Ég hélt að hæstv. fjmrh. væri það klókur maður og þekkti vel til í atvinnulífinu til að vita að enginn algild regla getur sagt okkur það að sameining hljóti alltaf að leiða eitthvað betra af sér en fyrir var. Við skulum bara hugsa okkur tvö fyrirtæki, annað töluvert skuldugt og hitt aftur á móti svo stórskuldugt að það rambar á gjaldþrotsbarmi. Fyrra fyrirtækið kann að bjargast með hæfilegri fyrirgreiðslu. Seinna fyrirtækinu verður bara alls ekkert bjargað. Auðvitað væri það mikill bjarnargreiði við fyrra fyrirtækið að vera að hengja seinna fyrirtækið á það og það gæti orðið til þess að seinna fyrirtækið, sem skuldar mjög mikið, mundi draga hið fyrra með sér í fallinu. Þá væri miklu betra að senda seinna fyrirtækið í gjaldþrot og láta fyrra fyrirtækið lifa. En það á að lögbinda að kommissarar ríkisstjórnarinnar skuli fylgja þeirri meginreglu að slík fyrirtæki verði að sameinast ef þau eiga að fá stuðning. Þetta er hættuleg hugsun og með öllu fráleit.
    Í öðru lagi verð ég að taka undir með þeim sem hér hafa talað á undan mér og á það bent að hugtökin sem notuð eru í 2. gr. er ákaflega þvogluleg og óljós og í einu orði sagt verður að segjast eins og er að þetta frv. er óvenjulega illa samið. Ég man varla eftir því, a.m.k. í langan tíma að hingað í þingið hafi komið frv. sem er svo illa samið sem þetta frv. Það eru einkum og sér í lagi þessi þrjú hugtök í 2. gr. sem hljóta að valda vafanum, þ.e. ,,verði sameinuð``, ,,ætla að sameinast``, ,,hafa sameinast``. Hvað þýða þessi hugtök? Ég er hræddur um að það viti ekki nokkur maður og ég er alveg sannfærður um það að ef þetta frv. verður að lögum á það eftir að valda miklum vandræðum í dómskerfinu.
    Ég býst við að það megi gera ráð fyrir því þegar fram líða stundir, eftir svona 100 ár, þá verði öll sveitarfélög á Vestfjörðum orðin að einu. Það er mjög líklegt. Í öllu falli er mjög líklegt að öll sveitarfélög hafi sameinast einhverju öðru sveitarfélagi að 100 árum liðnum. Nægir það þá að svo standi á? Það er stóra spurningin. Að sveitarfélög verði sameinuð á Vestfjörðum en það er ekkert um það hvenær það á að hafa gerst og mundi áreiðanlega duga, ef ekki er nánar tiltekið, að það gerðist eftir 100 ár.
    Á hvaða stigi málsins á það að ráða úrslitum hvort þetta skilyrði er uppfyllt og hver á að úrskurða um það? Nægir að sveitarstjóri hafi lýst því yfir að sveitarfélag verði sameinað einhvern tímann í framtíðinni? Verður sveitarstjórn að hafa lýst því yfir eða verða kjósendur að hafa lýst því yfir? Það kemur ekkert fram um það. Og hvað ef ekki er unnt að sameina, eins og hér var bent á áðan, vegna þess að

sameining hefur farið fram kannski fyrir allmörgum árum síðan? Er þá skilyrði laganna uppfyllt?
    Enn óljósara er þó orðalagið ,,ætla að sameinast`` því þar eiga í hlut sjávarútvegsfyrirtæki sem ætla að sameinast. Má þá veita öðru fyrirtækinu eða verður að veita báðum fyrirtækjunum þennan styrk? Ég hygg að samkvæmt orðalaginu yrði að veita þeim það báðum, hvoru í sínu lagi. Það stendur ekki hér að það eigi að veita þetta eftir að þau hafa verið sameinuð heldur áður en þau verða sameinuð. Það stendur hér ,,sem ætla að sameinast``. Þar af leiðandi yrði það ævinlega að vera svo að tvö fyrirtæki fengju þessa fyrirgreiðslu. Hvað svo ef þau hætta við, hver yrðu réttaráhrif þess? Ætti þá að svipta þau þessum lánum? Afturkalla þau? Ég hygg að það yrði erfitt vegna þess að það virðist nægja að á einhverju augnabliki ætli þau að gera þetta. Svo hætta þau við og þá ætla þau ekki að gera það lengur en það skiptir ekki máli.
    Þannig má eiginlega toga allt þetta orðalag í allar áttir og sama gildir auðvitað um það orðalag að sjávarútvegsfyrirtækin ,,hafi sameinast``. Er nóg að um sé að ræða einn trillukarl sem gekk inn í stórt fyrirtæki og þannig sameinuðust örlítið rekstarfyrirtæki trilukarls annars vegar og hins vegar stórfyrirtæki sem rekur marga togara? Nægir þetta til? Hvað þýðir það að þetta hafi gerst á síðustu þremur árum? Eru það almanaksárin eða er það frá flutningi frv. eða frá samþykkt frv.? Alls staðar, hvar sem gripið er niður, er jafnþvælulegt orðalag. Ég segi það skýrt og ákveðið: Svona getur lagatexti ekki hljóðað og svona er ekki hægt að bjóða hv. alþm. upp á. ( Gripið fram í: Þetta er fínt fyrir lögfræðinga.) Ég get vissulega samþykkt að það getur verið gott að fyrirtæki sameinist og það getur vel verið að það sé gott að hafa það að leiðarljósi að svo verði en orðalag af þessu tagi getur ekki staðist í löggjöf.
    Virðulegi forseti. Tími minn er senn á þrotum. Ég vek á því athygli að orðalag í frv., sem lýtur að vöxtum og afborgunum, er alveg jafnóljóst og annað sem ég hef nefnt hér. Það stendur í 4. gr.: ,,Lánin skulu vera afborganalaus fyrstu þrjú árin. Næstu þrjú ár skal einungis greiða vexti.`` Afborganir eru ekki vextir eins og allir vita og þá er spurningin: Verður ekki að skilja þetta þannig að þau skuli vera afborgunarlaus fyrstu þrjú árin en það skuli greiða vexti á sama tíma? Eða eru þessi næstu þrjú ár frá þeirri stund þegar frv. er samþykkt eða eru það næstu þrjú ár á eftir hinum þremur árunum sem áður voru nefnd? Þetta er mjög óljóst og má skilja á fleiri en einn veg.
    Tími minn er á þrotum, herra forseti. ( Gripið fram í: Þú verður nú að fá botn í þetta.) Ég segi það aðeins að lokum að það er jákvæð hugsun í þessu frv. en það hefur verið samansett á ákaflega flausturslegan hátt og þarfnast verulegra endurbóta í þinginu.