Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 17:05:26 (5437)


[17:05]
     Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Mér þykir hæstv. fjmrh. vera mjög bjartsýnn. Þó sem betur fer hafi nú borist fréttir af því að betur horfi í okkar fiskveiðimálum þá skilst mér að ekki séu horfur á að þorskkvóti verði aukinn í bráð þó vonandi gerist það. Ég á erfitt með að trúa því að þessar 300 millj. dugi til að brúa það bil þangað til hægt verður að auka kvótann.
    Ég viðurkenni alveg eins og ég sagði áðan að vestfirsk fyrirtæki eiga í miklum erfiðleikum og að Vestfirðingar standa frammi fyrir miklum erfiðleikum klárist þeirra þorskkvóti en það breytir ekki meginspurningunni: Er verið að taka á vandanum þar sem hann er mestur? Þarna er mikill vandi en hvað um aðra landshluta? Hvað um önnur svæði? Horfum t.d. á Akureyri þar sem atvinnuleysi hefur verið gífurlegt. Auðvitað má segja sem svo að þarna sé verið að fyrirbyggja enn stærri vanda. En það er erfitt að réttlæta það að grípa þarna til einnar fyrirbyggjandi aðgerðar á meðan við horfum upp á svæði eins og Akureyri og Suðurnes þar sem atvinnuleysi er gífurlegt.