Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 17:06:59 (5438)


[17:06]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Þeir fjármunir sem renna til vestfirskra fyrirtækja verða 300 millj. ef allar heimildirnar eru notaðar. Þessu til viðbótar er gert ráð fyrir að á annað hundrað milljóna, kannski nær 200 millj., gætu runnið til sveitarfélaga í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga þannig að þar er um talsverða aðstoð að ræða. Þetta gerist reyndar ekki á einu ári heldur fjórum.

    Það sem skiptir máli er að til viðbótar er búist við því að kröfuhafar komi að þessum málum einnig og hjálpi til. Það má ekki gleyma því. Sem betur fer er það þannig í mörgum tilvikum að birgjar og kröfuhafar hafa getað liðkað til, teygt úr lánum, jafnvel breytt viðskiptaskuldum í hlutafé þegar illa hefur árað og afkoma er slæm í fyrirtækjum eins og þessum, ekki síst ef einhver björt von er fram undan.
    Varðandi Akureyri er það alveg hárrétt að það eru vandamál á Akureyri og mjög víða á landinu vegna atvinnuleysis. Það eru annars konar vandamál sem þarf að taka á með allt annars konar aðferðum heldur en þarna er verið að beita. Það er það sem m.a. Atvinnuleysistryggingasjóður hefur verið að skoða.