Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 17:50:35 (5444)


[17:50]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Það er mjög mikilvægt ef hv. 2. þm. Austurl. viðurkennir að þær umfangsmiklu almennu ráðstafanir sem gerðar hafa verið hafa skilað þessum mjög svo umtalsverða árangri við erfiðar aðstæður. Auðvitað er eðlilegt að gera athugun á stöðu sjávarútvegsins í heild í landinu og það hefur verið gert. Þjóðhagsstofnun hefur að minni beiðni unnið slíka athugun, sem ég vænti að komi í hólf þingmanna nú í dag, þar sem gerð er grein fyrir mismunandi afkomu sjávarútvegsfyrirtækja í einstökum kjördæmum, hvernig eiginfjárstaða hefur breyst og hvernig þróun hefur verið í lönduðum afla. Það er vissulega svo að aðstaðan er mismunandi. Á Vestfjörðum hagaði svo til að 1992 var afkoma sjávarútvegsfyrirtækja 0,8% lakari en meðaltalið en núna á þessu ári eru horfur á því að hún verði 2,5% lakari. Og það er ekkert óeðlilegt að menn grípi til sérstakra ráðstafana í þeim tilgangi að treysta byggðir þar sem byggð er veik. En aðalatriðið er þó það að menn hafa með almennum ráðstöfunum skapað sjávarútveginum skilyrði til þess að skila hagnaði í heild við þessar erfiðu aðstæður og það er það sem skiptir máli og er umtalsvert.