Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 18:44:50 (5456)


[18:44]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hafi ég skilið fyrirspurn hv. þm. rétt þá vil ég taka fram að stuðningur við sveitarfélög í gegnum Jöfnunarsjóðinn gildir ekki einungis fyrir Vestfirði heldur fyrir önnur sveitarfélög þar sem sams konar ástand ríkir. Það er því algild aðgerð en ekki sértæk miðað við landafræðina, þ.e. ekki eingöngu vestfirsk aðgerð.
    Varðandi úttekt sem getið er um í fskj. með frv. skal það tekið fram að forsrh. hefur beint þeirri ósk til Byggðastofnunar, --- ég vil taka fram að það tók fjóra mánuði fyrir starfshópinn að vinna tillögur fyrir ríkisstjórnina varðandi Vestfirði og það getur tekið einhvern tíma að vinna fyrir aðra og það kann að vera að aðgerðir sem grípa þarf til annars staðar séu öðruvísi aðgerðir. Ég bendi á að það er ekki víst að ríkissjóður þurfi að koma að því.
    Loks vil ég, virðulegi forseti, ég tel alveg bráðnauðsynlegt að það komi fram, benda á að það er ekki alls kostar rétt sem kom fram hjá hv. þm. um að orkan hefði hækkað vegna virðisaukaskatts. Það er auðvitað alrangt varðandi fyrirtækin því öllum er ljóst að fyrirtækin sem hafa borið innskattinn geta dregið hann frá útskattinum og það gildir um orku eins og annað. Þannig að þetta er auðvitað misskilningur. Öðru máli gegnir um einstaklinga sem þurfa að bera virðisaukaskattinn, en fyrirtækin hafa ekki þurft að greiða hann til viðbótar því hann er dreginn frá í rekstri, eins og ég veit að hv. þm. áttar sig á þegar hann hugsar málið. Varðandi skatta að öðru leyti þá er alveg ljóst, því getur enginn mótmælt sem hér er inni, að þessi ríkisstjórn, og kannski ber sá sem hér stendur mesta ábyrgð á því, hefur lækkað stórkostlega skatta á fyrirtækjum í landinu, bæði tekjuskattinn og eins aðstöðugjaldið. Þannig að þó að lagt hafi verið á 0,35% tryggingagjald til viðbótar þá er það pínulítið, þá er það smáræði miðað við þær skattalækkanir á fyrirtækjum sem ríkisstjórnin hefur staðið fyrir. Af hverju var það gert? Það var gert til að styrkja fyrirtækin, styrkja samkeppnisstöðu fyrirtækjanna og koma í veg fyrir að atvinnuleysi ykist. Þetta er eitt af því stærsta sem þessi ríkisstjórn hefur gert. Ríkisstjórnin hefur verið sökuð um að koma skattbyrðinni yfir á almenning í staðinn og það er auðvitað nokkuð til í því, enda hefur aldrei verið dregin fjöður yfir það af hálfu ríkisstjórnarinnar.