Tollalög og vörugjald

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 19:18:15 (5471)


[19:18]
     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Á fyrsta degi þingsins eftir áramót kvaddi ég mér hljóðs utan dagskrár til að spyrja hæstv. landbrh. að því hvað liði ráðstöfunum til þess að styrkja stöðu garðyrkjunnar vegna þess áfalls sem hún verður fyrir þegar í gildi er genginn hliðarsamningur við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið sem opnaði fyrir tollfrjálsan innflutning margra tegunda blóma og grænmetis nærri hálft árið. Ég fékk þau svör frá hæstv. landbrh. að hann vonaðist til að þá næstu viku yrði lagt fram frv. um það efni á hv. Alþingi. Ég lýsi að sjálfsögðu yfir ánægju minni yfir því að nú skuli þessi vika loksins liðin og frv. vera lagt fram.
    Hins vegar verð ég að draga í efa að þær ráðstafanir sem hér er lagt til að heimila ráðherra að gera nægi til þess að bæta nema lítinn hluta af því áfalli sem garðyrkjan verður fyrir af fyrrnefndu sökum, enda þótt hæstv. utanrrh. hafi oft ítrekað það hér og síðast fyrir fáum dögum að það séu svo miklir smámunir að það taki því ekki að vera að minnast á það þó garðyrkjan verði fyrir slíku.
    Hæstv. fjmrh. nefndi að þær heimildir sem hér er gert ráð fyrir að lögfesta mundu kosta ríkissjóð u.þ.b. 10 millj. kr. á ári ef þær verða notaðar að fullu væntanlega miðað við árið 1992. Þar sem ég veit að gerð hefur verið úttekt á samkeppnisstöðu garðyrkjunnar miðað við innfluttar vörur, þá vildi ég spyrja hæstv. fjmrh. hvað þar komi fram, hvort samkeppnisstaða íslenskrar garðyrkju sé miklu verri heldur en þeirra erlendu framleiðenda sem vörur eru fluttar inn frá.
    Það er vitað að hjá Evrópubandalaginu er framleiðsla garðyrkju og blóma greidd niður allt að 20%, a.m.k. í sumum löndum eins og Hollandi. Það er augljóst að þessar 10 millj. kr. vega harla skammt til að bæta upp aðeins þann mismun fyrir utan það svo að ýmis aðföng hafa verið dýrari hér, orka er miklu dýrari og ýmislegt fleira sem er á valdi opinberra aðila að ákveða verðlagningu á. Ég vildi því bera þá ósk fram við hæstv. fjmrh. að hann gæfi nánari upplýsingar um þetta atriði. Mér finnst að í greinargerð frv. komi harla lítið fram um þessi atriði og nauðsynlegt að vita það til þess að hægt sé að halda áfram að fjalla um málið og hvaða ráðstafanir þurfi að gera til viðbótar.