Tollalög og vörugjald

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 19:24:42 (5473)


[19:24]
     Jón Helgason (andsvar) :
    Herra forseti. Eftir svari hæstv. fjmrh. að dæma virðist ekki hafa verið farið að hugsa neitt um þetta mál þegar hæstv. landbrh. gaf þá yfirlýsingu að frv. yrði lagt fram eftir viku úr því að það þurfti svo langan tíma til þess. En það er liðin saga og vonandi gengur þetta mál hratt fyrir sig þó ég vilji leggja áherslu á að það sé skoðað hvort ekki sé hægt að koma meira til móts við íslenska garðyrkju.
    Ég átti ekki við sólarorkuna þegar ég var að tala um mismunandi verð því að hún er ekki keypt hér á landi heldur. Við vitum að verð á orku til gróðurhúsaræktunar er hærra hér en víðast hvar annars staðar. Jafnvel í suðlægari löndum er notuð slík orka til framleiðslu á blómum og grænmeti yfir veturinn.
    En ég vil að lokum láta í ljós ánægju mína yfir þeirri yfirlýsingu frá hv. fjmrh. að það sé heimild til að beita jöfnunargjöldum vegna þessara niðurgreiðslna sem Evrópubandalagið veitir á framleiðslu þar. Og ég vil spyrja hæstv. fjmrh. hvort hann muni ekki örugglega beita sér fyrir því að þeim verði beitt þegar í stað.