Tollalög og vörugjald

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 19:28:51 (5475)


[19:28]
     Jón Helgason (andsvar) :
    Herra forseti. Ég hygg ég muni það rétt að það hafi verið eftir að ég hóf utandagskrárumræðu sem ég hitti fulltrúa frá garðyrkjubændum og þeir tjáðu mér að þetta mál hefði verið til viðræðu við landbrn. og fjmrn. eins og hæstv. ráðherra segir en hins vegar væri vandræðagangur með að koma tollalækkun fyrir. Þá varpaði ég því fram að mér sýndist að helst væri að framkvæma það með endurgreiðslu eins og hér er lagt til í frv. Mér skildist svo síðar að það hefði þá verið tekið til skoðunar og sem betur fer verið talið framkvæmanlegt.
    Ég vil sérstaklega víkja að þeim möguleika að leggja á jöfnunartolla og vildi spyrja hæstv. fjmrh. að því hvort það þurfi einhverjar breytingar á tollalögum. Hér er á ferðinni frv. til laga um breytingu á tollalögum og lögum um vörugjöld og ef það þarf einhverjar lagabreytingar, þá sýnist mér að tækifærið sé hér. Úr því að verið er að breyta tollalögum á annað borð þá sé ekki eftir neinu að bíða með að veita þessa heimid því að ég þori að fullyrða að það muni ekki standa á garðyrkjumönnum sem geta sýnt fram á að þeir hafi orðið fyrir tjóni vegna þessa tollfrjálsa innflutnings sem við erum . . .  ( Fjmrh.: Vegna niðurgreiðslna.) Já, vegna niðurgreiðslna sem lækkar verðið að sjálfsögðu ef það er niðurgreitt um 20%, t.d. í Hollandi þaðan sem innflutningurinn kemur. Að vísu er vandamál vegna EES-samningsins að gera kröfur til upprunavottorða ef sendingar eru ekki stærri heldur en þær sem koma hingað til lands. En ég tel nauðsynlegt að reyna að breyta lögum ef eitthvað skortir á.