Tollalög og vörugjald

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 19:35:11 (5477)


[19:35]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Hæstv. forseti. Ég ætla fyrst að reyna að skýra 2. gr. Það kann að vera að ég skilji hana ekki rétt en mér sýnist að hér sé verið að leita betri lagastoðar heldur en reglugerð sem í gildi er hefur í dag. Jafnframt er nauðsynlegt að vitna í vörugjaldslögin vegna þess að tolli á sumum vörum var breytt í vörugjald á sínum tíma. Þeir tollar eða vörugjald á aðföngum til garðyrkju geta verið hvort tveggja á vörur sem framleiddar eru erlendis eða hérlendis. Ég vek athygli á því að hér er verið að leggja til að gróðurhúsaframleiðendur sem kaupa vörur innan lands þurfi ekki að bera vörugjöld sem aðföngin bera, hvort sem það er af hráefni eða öðrum vörum sem þarna eru nefndar. Ég held að það sé fyrst og fremst verið að undirstrika það auk þess sem verið er að leita nýrrar lagastoðar þegar í ljós kom að gildandi niðurfellingarheimild í reglugerðinni hefur ekki næga lagastoð. Það skiptir reyndar ekki máli. Þetta er skýrt. Tilgangurinn er sá sami og kemur mjög skýrt fram í athugasemdum með frv. Auðvitað þarf að ganga tæknilega rétt frá frv. og ég veit að hv. nefnd kann á það.
    Þá vil ég segja frá jöfnunartollum. Það er rétt að ríkisstjórnin fjallaði í dag um jöfnunartolla og þeim hefur ekki mikið verið beitt. Það er að vísu heimild í tollalögunum og eins heimild til að beita undirboðstollum. Þær heimildir hafa lítið verið notaðar. Undirboðstollaaðgerðir á Evrópska efnahagssvæðinu eru samræmdar þannig að Samkeppnisstofnun mun fjalla um slík mál hér á landi. Hins vegar er hugmyndin að setja upp nefnd til þess að fjalla um undirboðstolla sem snúa að innflutningi frá öðrum ríkjum og jafnframt jöfnunartolla en þá má nota þegar um er að ræða styrki eða niðurgreiðslur af hálfu opinberra aðila. Til þess að geta beitt slíkum tollum með áhrifaríkum hætti þarf að breyta lögum og innan tíðar verður lagt fyrir þingflokka stjórnarflokkanna, væntanlega á morgun á fundi, tillaga þess efnis að breyta tollalögunum þannig að hægt sé að beita þeim aðgerðum sem má grípa til samkvæmt alþjóðlegum samningum.
    Sú breyting sem þar er um að ræða fjallar einmitt um það að reyna að ná til þjónustuviðskiptanna auk vöruviðskiptanna sem hefur auðvitað mika þýðingu, sérstaklega þegar talað er um viðgerðir á fiskiskipum, svo ég nefni til sögunnar mál sem mikið hefur verið til umræðu á hv. Alþingi á undanförnum árum. Að nokkru leyti munu Íslendingar ríða á vaðið verði þessi heimild veitt og mikil vinna hefur farið fram um þetta mál, sem birtist í reglugerð, en að sjálfsögðu get ég ekki annað en sagt frá þessu með þeim fyrirvara að ríkisstjórnarflokkarnir samþykki framlagningu frv. en ég á ekki von á neinni fyrirstöðu af þeirra hálfu.
    Allt þetta sem ég hef hér sagt mun hjálpa okkur ef okkur tekst að nýta þessar heimildir með réttum hætti, en lykillinn að því er sá að innlendir aðilar geti sannað að um tjón hafi verið að ræða og ég viðurkenni að það er að sjálfsögðu mjög erfitt í vissum tilvikum. Þó er gert ráð fyrir því að um aðstoð opinberra aðila verði að ræða.
    Það sem er þó kannski merkilegast við þetta allt saman er að í þeirri vinnu sem hefur átt sér stað hafa tekið þátt fulltrúar ekki eingöngu fjmrn. og iðnrn. heldur einnig utanrrn., sem fer með samningsvaldið gagnvart erlendum þjóðum, og sjútvn. en eins og allir vita hefur sjávarútvegurinn mikilla hagsmuna að gæta í þessum efnum. Þetta var ekki hugsað gagnvart landbúnaðarvörum vegna þess að landbúnaðarvörur hafa yfirleitt verið mjög vel varðar hér á landi með alls konar innflutningshöftum eða innflutningstollum og -gjöldum en nú er sú tíð að breytast og þess vegna þurfa þessi tæki að vera til ef ríkisstjórnin vildi

breyta slíkum tollum. Þetta er allt á undirbúningsstigi og ekki ástæða til að fara að ræða þessi mál núna áður en sjálft frv. kemur fram. Ég kýs að nefna þetta vegna orða hv. þm. og ef ekki verður búið að afgreiða það frv. sem hér er til umræðu út úr nefnd, þá er ekkert að vanbúnaði þegar seinna frv. fer til nefndarinnar að afgreiða þau bæði út úr nefndinni á sama tíma. En ég átti satt að segja von á því að það tæki ekki ýkjalangan tíma að afgreiða það mál sem hér er til umræðu út úr nefnd þegar hún kemst í það verk að fjalla um það.