Tollalög og vörugjald

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 19:41:42 (5478)


[19:41]
     Jón Helgason (andsvar) :
    Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. þessar yfirlýsingar en mig langaði aðeins að spyrja frekar. Það sem ég var að leggja til var að frv. yrði, ef á þyrfti að halda, breytt þannig að gagnvart garðyrkjunni væri hægt að nýta strax heimildir til jöfnunar tolla ef það þyrfti að breyta lögum. En ég er síður en svo að leggja það til að frestað verði að afgreiða þetta frv. og gera það að lögum en tel þó miklu máli skipta að það verði í þeim búningi að það þjóni garðyrkjunni sem best.
    Það sem mér finnst þó skipta mestu máli og ég hélt að ég hefði spurt hæstv. fjmrh. að var hvort ríkisstjórnin muni örugglega beita þeim heimildum sem hún hefur samkvæmt alþjóðasamningum til þess að vernda innlenda framleiðslu og þá ekki aðeins garðyrkju heldur fjölmargt annað sem hæstv. ráðherra minntist hér á. Mér er það ljóst að það er ekki hægt í einu vetfangi að sundurliða það allt en stefnumörkunin er auðvitað það sem mestu máli skiptir. Það er hvort vilji er fyrir hendi hjá hæstv. ríkisstjórn að nýta þessa möguleika.