Tollalög og vörugjald

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 19:43:40 (5479)


[19:43]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er allt of flókið mál að taka jöfnunartollinn til meðferðar með því frv. sem hér er verið að ræða. Þau reglugerðardrög sem nú liggja fyrir eru upp á 46 greinar, mjög flóknar lögfræðilegar greinar, því hér er um að ræða afar flókið viðfangsefni. Lagagreinarnar, sem yrðu í væntanlegu frv. ef og þegar það verður lagt fram, eru hins vegar miklu færri, tvær eða þrjár. Ég væri ekki að leggja þessar lagabreytingar til við þingflokka stjórnarliðsins og síðan væntanlega við Alþingi nema vegna þess að hugur fylgdi máli. Og ástæðan fyrir því að þetta mál hefur ekki komið fram strax er að vinnan hefur tekið mjög langan tíma. Hún er mjög flókin og í vissum tilvikum má búast við því að verði heimildin notuð séu það Íslendingar sem ríða á vaðið í þeim efnum. Menn verða því að fara dálítið varlega af stað og taka hvert skref mjög vel yfirvegað.
    En vegna beinnar fyrirspurnar er að sjálfsögðu ekki verið að leggja í það að breyta lögum og setja langa ítarlega reglugerð um það hvernig eigi að fylgja lögunum nema vegna þess að það er alvara á bak við aðgerð ríkisstjórnarinnar og ég hef tryggt það að þau ráðuneyti sem eiga hagsmuna að gæta í þessu máli öllu hafi komið að þessari undirbúningsvinnu sem táknar að mínu viti að það sé fullur hugur af hálfu ríkisstjórnarinnar allrar að beita þessum ákvæðum ef á þarf að halda og hægt er að sanna að um niðurgreiðslur sé að ræða sem valda tjóni hjá innlendum framleiðendum.