Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 21:39:37 (5500)


[21:39]
     Árni Johnsen :

    Virðulegi forseti. Í umræðum um frv. ríkisstjórnarinnar varðandi ráðstafanir til að stuðla að stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum og í kjölfar samdráttar á þorskafla hafa menn farið vítt yfir sviðið. Er það svo sem ekki undarlegt því margt kemur til í slíkri umræðu sem hér á sér stað. Það er engin spurning að mínu mati að ástæða er til að bregðast við vanda Vestfirðinga. Það er ljóst að þar er við ramman reip að draga og vandi sem verður að horfast í augu við og takast á við. Hins vegar er kannski ástæða til að skilgreina nokkuð hvers vegna vandi Vestfirðinga er á borðinu eins og hann er. Hvort það er eingöngu vegna samdráttar í þorskafla, eins og gefið er að nokkru leyti í skyn með frv. ríkisstjórnarinnar, eða hvort fleiri atriði komi til. Að mínu mati eru það margir þættir sem koma til og koma við sögu í þessu efni. Uppsafnaður vandi til langs tíma. Samdráttur í þorskafla kemur til á tiltölulega skömmum tíma en það er nokkur ástæða til að horfa yfir 25--30 ára tíma á Vestfjörðum og þróun útgerðar og fiskvinnslu þar sem kom mjög bratt inn þá í kjölfar vaxandi tækni, í kjölfara togara sem fjölgaði mjög upp úr 1970 hér við land og breyttu nánast gjörsamlega veiðimunstri við landið og ekki síst á Vestfjörðum og ekki aðeins veiðimunstri heldur einnig menningarlífi til sjávar og sveita á Vestfjörðum.
    Það er á þessum nótum sem ástæða er til að velta upp hlutum og skoða vegna þess að ekkert veiðipláss, ekkert veiðisvæði, getur miðað sig við hámarkið eitt. Veiði er eins og gengur upp og ofan og einhvers staðar mitt á milli þess þegar verst gengur og best gengur er meðaltalið sem menn ættu að finna sér farveg í. Það er ljóst að um langt árabil var til að mynda á Vestfjörðum erlendur vinnukraftur í stórum stíl sem þýddi í rauninni að Vestfirðingar bjuggu á þeim tíma við hámark í veiðum og vinnslu. Vestfirðingar eru kappsamir, þeir eru harðskeyttir og fylgnir sér og eru kannski að sumu leyti bundnari við sitt svæði en margir aðrir landsmenn. Ekki eingöngu vegna hinnar svokölluðu náttúrufræðilegu stöðu, heldur einfaldlega vegna skapgerðar. Þetta hef ég lært á löngum tíma sem blaðamaður á ferðinni um allt land.
    Það er ástæða til þess nefnilega að kryfja þetta nokkuð til mergjar þegar maður veltir fyrir sér ástæðum fyrir aðgerðum eins og nú er talað um. Aðgerðum sem eru ekkert of í lagðar. Þær eru jákvæðar, þær eiga að liðka til og þær eiga að vera hvetjandi en peningaupphæðin í sjálfu sér er ekki stór miðað við þann vanda sem við blasir.
    Skoðum aðeins aðra hluta landsins, til að mynda á árunum 1986 til 1992. Þegar gerður er samanburður á lönduðum afla þá minnkaði landaður afli í Vestmannaeyjum, á Vesturlandi, um nálægt 30%. Það er mesta minnkun á landinu. Hún var minnst á Vestfjörðum á þessum árum, 2%. Það segir ákveðna sögu að ýmis önnur sjávarpláss á landinu þurftu að sveigja af leið, sitja uppi með breyttar aðstæður og breyttar forsendur og reyndu að mínu mati í ríkari mæli en gert hefur verið á Vestfjörðum að bregðast við þeim vanda. Það er einmitt blákalt hægt að segja það að Vestfirðingar hafa því miður síður en aðrir landsmenn brugðist við vanda í þessum efnum. Þeir hafa haldið sínu striki, eru þekktir fyrir það og kannski þess vegna vilja þeir búa þetta harðsækna svæði og það er gott og vel og allt jákvætt um það, en það er ástæða til að horfa á forsendurnar.
    Það hefur verið lagt mikið kapp á það víðast um land að skipuleggja veiðar og vinnslu og vissulega hafa Vestfirðingar tekið þátt í því. En ég hygg þó að þeir megi segja það átölulaust að þeir hafa minna en margir aðrir skipulagt veiðar sínar miðað við kvóta og samsetningu.
    Í umræðu fyrr í dag fjallaði hv. 3. þm. Vesturl. um að það hefði mátt komast hjá skerðingu á síðustu missirum með annars konar jöfnun en gerð var við kvótaaukningu fyrir tveimur árum. Það var svo sem ánægjulegt að hv. þm. Jóhann Ársælsson kom fram í nafni kærleikans og var tilbúinn að brjóta brauðið til allra, engan átti að skerða en allir áttu að hafa betra.
    Ef maður gáir hverjar forsendur þingmannsins kunna að vera á bak við svona gjafapakkningar þá var aukning á kvóta til að mynda í ýsu og ufsa. Kvóta sem vissulega var aukinn á pappírnum en hefur ekki reynst vera annað en pappírskvóti. Menn vissu það reyndar fyrir fram að það yrði aldrei unnt að veiða þann ýsukvóta sem ætlaður var bátum, a.m.k. í þremur landsfjórðungum. Þegar síðan kemur til skerðingar á þorskafla þá kemur ekkert síður til skerðingar hjá þeim bátum sem höfðu hlutfallslega minni þorskafla vegna þess að þeir náðu einfaldlega ekki öðrum tegundum sem þeim var ætlað að veiða og ganga að. Að þessu leyti er sérstaða Vestfjarða lítið á annan veg en annars staðar. Það er mergurinn málsins. Þess vegna verður að krefjast þess þegar gripið er til aðgerða, sem ég vil ekki kalla sértækar aðgerðir, þó þær miðist við þennan landsfjórðung, heldur almennar byggðaaðgerðir í erfiðri stöðu vegna margra þátta sem koma saman og, eins og ég sagði fyrr, þar sem þorsksamdrátturinn er aðeins einn hluti af stóru dæmi að aðrir landsmenn sitji við sama borð.
    Það er ekki nóg að mínu mati, eins og segir í fylgiskjali frv. ríkisstjórnarinnar að það eigi að gera úttekt á öðrum byggðarlögum, og svo ég vitni í fylgiskjalið, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Úttektin sem fyrir liggur hefur beinst að sérstöðu Vestfjarða vegna einhæfni atvinnulífs, niðurskurðar aflaheimilda og landfræðilegrar einangrunar. Í framhaldi af því beinir ríkisstjórnin því til Byggðastofnunar að gera úttekt á byggðarlögum sem kunna að hafa orðið fyrir sambærilegum samdrætti í aflaheimildum, búa við áþekka einhæfni atvinnulífs og einangrun og vinna að stækkun atvinnu- og þjónustusvæða með sameiningu sveitarfélaga að markmiði.``
    Þetta er svo sem gott og vel en kveður ekki nógu fast að orði að aðrar byggðir landsins skuli sitja við sama borð.
    Það er talað um þriggja ára afturvirkni á Vestfjörðum í þessu dæmi og finnst mér skynsamlegt að

það gildi fyrir þann tíma sem hæstv. núv. ríkisstjórn ber ábyrgð á, ekki síst í kjölfar og samhliða þeim víðtæku aðgerðum sem hún hefur gripið til til þess að styrkja atvinnulífið í landinu, til að styrkja útveginn og fiskvinnsluna, svo sem afnámi aðstöðugjalds, gengisbreytingum og öðrum þáttum sem hafa gert það af verkum að við höfum þó í landinu mun sterkari stöðu en margir þorðu að vona og öll rök hnigu að. Það þarf að kveða fastar þarna að orði. Það þarf að vera hreinni lína að menn skuli sitja við sama borð. Annað er ekki ásættanlegt að mínu mati til þess að standa að samþykki frv.
    Það er nefnilega búið að vinna ekki aðeins á Vestfjörðum heldur nánast í öllum landsfjórðungum aðgerðir og verk sem nú er ætlast til undir þeim formerkjum sem þetta frv. byggir á og setur fram. Ég get nefnt sem dæmi sameiningu fyrirtækja í mínu kjördæmi, í Þorlákshöfn, í Vestmannaeyjum, sameiningu stórra fyrirtækja sem eru mjög skuldsett af mörgum ástæðum ekki síst vegna samdráttar í veiðiheimildum. Þess vegna gengur ekki upp að stilla Vestfirðingum upp í þessu efni með einhverja sérstöðu. Þeir hafa kannski farið óvarlegast í því að klára þorskinn sinn á undan öðrum og það fer Vestfirðingum svo sem vel að vera á undan öðrum í þessum efnum því þeir eru kappsamir menn, en því miður hefur það leitt til vanda sem þarf að bregðast við og um það snýst þessi umræða og þetta frv.
    Í frv. er ákvæði varðandi sameiningu sem þarf líka að skilgreina markvissar. Það er t.d. vart stefnt að því að ætlast til þess að hið öfluga sjávarútvegspláss, Vestmannaeyjar, sameinist endilega öðru sveitarfélagi til þess að ná fram sama rétti og aðrar byggðir á landinu nema menn séu að gera því skóna að ætla sér að vaffin sameinist, Vestfirðir og Vestmannaeyjar, hin gjöfulu fiskimið en ég reikna samt ekki með því að neitt sé á bak við það í sjálfu sér þó að ástæða sé til að skoða allt til hins ýtrasta.
    Von landsins er í vöskum veiðimönnum og þetta er vandmeðfarið mál sem þarf að bregðast við, en ég ítreka að það þarf að koma skýrt fram að mínu mati hjá ríkisstjórninni að aðrir landsmenn, önnur fyrirtæki, önnur sveitarfélög muni sitja við sama borð í þessum efnum.
    Það eru auðvitað mörg efaatriði í slíku máli. Til að mynda má vitna í skýrslu Byggðastofnunar frá 3. mars sl. um ástand og horfur í atvinnumálum á Vestfjörðum. Þar sem ætti að standa efnisyfirlit stendur efinsyfirlit þannig að efinn kemur fljótt inn í það plagg og er auðvitað ekki í alvöru gert því að prentvillupúkinn hefur skotist þar inn. En það eru mörg ef í þessu máli, en fyrst og fremst verða menn að sitja við sama borð því að sérstaðan er að mínu mati ekki fyrir hendi á þeim formerkjum sem hefur verið stillt upp í þessu máli í umræðunni í heild.