Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 21:55:14 (5501)


[21:55]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hv. 3. þm. Suðurl. vék að mér nokkrum orðum í ræðu sinni og hélt því fram að ég hefði sagt fyrr í dag að það hefði verið hægt að úthluta veiðiheimildum þannig að enginn hefði orðið fyrir neinum skerðingum. Það sagði ég ekki. Ég sagði það einfaldlega að það hefði verið hægt að úthluta veiðiheimildum þannig að allir hefðu orðið fyrir sambærilegum skerðingum og samkvæmt þeim úthlutunum sem voru í hittiðfyrra og líka í fyrra, þá hefði það verið í kringum 3% að meðaltali. Þá hefðu menn setið uppi með almennan vanda í sjávarútvegi sem hefði verið miklu auðveldara að fást við en er í dag. En vegna þessa ígildis eignarréttar sem menn sjá í veiðiheimildunum hefur ekki mátt taka skynsamlegar ákvarðanir. Það er ekki bara í þessu efni sem við sitjum uppi með þennan vanda heldur er hægt í fjöldamörgum öðrum tilvikum að benda á svona lagað. Það er skemmst að minnast þess að hæstv. sjútvrh. úthlutaði útlendum loðnuheimildum til íslenska loðnuveiðiflotans fyrir nokkrum dögum síðan. Hvernig var farið að því? Það var úthlutað mest til þeirra sem höfðu mestar veiðiheimildir á loðnu og höfðu minnstan möguleika á því að geta veitt. Af hverju? Vegna þess að þau þurftu endilega að halda sig við veiðiheimildaeignina, aflahlutdeildina svokölluðu, þ.e. þann hluta úr fiskstofnunum sem hver og einn útgerðarmaður á. Það er þess vegna sem við höfum ekki lengur yfirráð yfir þessari auðlind að menn eru farnir að líta á hana sem sína eign. Ríkisstjórnin landsins er farin að spila eftir þessari pípu.