Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 22:04:19 (5506)


[22:04]
     Árni Johnsen (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Þau orð sem ég vitnaði í í frv. og las upp voru ekki mín orð heldur frv. þar sem

rökin sem færð eru fyrir sérstöðu Vestfjarða í þessu máli eru talin byggjast á erfiðum samgöngum, einhæfni í atvinnulífi og landfræðilegri legu. Ég kaupi ekki þessi rök sem sérstöðu fyrir Vestfirði miðað við ýmsar aðrar byggðir landsins, hvort sem það er á Vesturlandi, Austurlandi eða Norðurlandi. Ég nefni Þórshöfn á Langanesi. Það er ekkert önnur staða hjá því byggðarlagi en til að mynda flestum byggðarlögum á Vestfjörðum þar sem allt byggist á fiski og þar sem plássið er afskekkt vegna náttúrufræðilegrar legu. Þetta eru kurteisleg orð eins og þau eru sögð í frv. en sérstæðan er ekki á þennan hátt að mínu mati.
    Hv. síðasti ræðumaður talaði um að Vestfirðingar hefðu þurft að selja undan sér björgina umfram aðra vegna fiskveiðistjórnunar. Það er bara einfaldlega ekki rétt. Vestfirðingar hafa ekki í meiri mæli en mörg önnur pláss á landinu þurft að hreyfa sig til í þeim efnum með sölu á kvóta, skipum eða öðrum fjárfestingum.
    Þegar kemur að umræðum um þá uppskiptingu hvað sé sanngjarnt og hvar eigi að lenda, þá geta menn líka farið út í það að fara lengra aftur í tímann og spyrja: Hvað breyttist með aukningu togaraflotans sem breytti stórkostlega veiðimynstrinu um landið og vinnslumynstrinu líka? Ég býst við að þá ríði nú Vestfirðingar feitari hesti en þeir sem sunnar búa á landinu.