Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 22:43:28 (5515)


[22:43]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Þjóðarsáttin svokölluð var dregin inn í umræðurnar fyrr og þá minntist ég á það í mínu máli að Sjálfstfl. hefði stutt þær aðgerðir á sínum tíma þrátt fyrir það að hann hefði verið í stjórnarandstöðu. Það var veigamesti punkturinn í ræðu minni. Ég sagði jafnframt að þetta hefði verið verk Einars Odds Kristjánssonar og Ásmundar Stefánssonar og ég ætla að rifja það upp fyrir þeim sem fara hér með sögufyrirlestur að ríkisstjórnin gerði ráð fyrir 20% verðbólgu á árinu 1990, það kom fram í þjóðhagsáætlun á þeim tíma, og þáv. fjmrh. hafði gert samninga við BHMR á árinu 1989. Eitt af því sem Einar Oddur og Ásmundur Stefánsson bentu þáverandi ríkisstjórn á var að það þyrfti að breyta þeim kjarasamningi. Það var látið undir höfuð leggjast eins og menn vita og endaði í bráðabirgðalögum og vandræðagangi sumarið 1990. Þetta er auðvitað saga sem allir þekkja og þarf ekkert að vera að rifja upp. Það muna allir hvernig þetta gekk fyrir sig og ríkisstjórnin þæfðist við en kom með að lokum. Því það er hárrétt sem hv. þm. sagði að niðurstaðan varð sú að Einar Oddur sagði að ríkisstjórnin og hv. þm. Steingrímur Hermannsson hefðu staðið við allt sitt, ekki síst eftir að þeir settu bráðabirgðalögin vegna samningsins við BHMR.
    Svo ætla ég að minna á það í lokin að þegar sú ríkisstjórn skildi við höfðu safnast upp skuldir í

Seðlabankanum, 10 milljarðar, og það að hækka vextina var einungis að taka mið af raunveruleikanum því það streymdi fé úr ríkissjóði. Þetta hef ég farið í gegnum áður í mínu máli.
    Loks má það ekki gleymast að sú ríkisstjórn sem nú situr hefur þurft að þola það að verð á sjávarafurðum erlendis hefur lækkað um meira en 25% á þessum tíma og við höfum þurft að draga saman aflaheimildir sem notaðar eru af skipum. Þetta hefur gerst og það þarf að taka tillit til þessa í umræðunni.