Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 23:06:37 (5525)


[23:06]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það var miðstjórnarfundur fyrir ekki löngu síðan hjá Alþfl. Á þeim miðstjórnarfundi var gerð samþykkt um sjávarútvegsmál. Mér fannst ákaflega erfitt að átta mig á því að hún gæti verið í samræmi við þá stefnu Alþfl. sem hefur komið fram í frumvörpunum sem liggja núna fyrir þinginu, þ.e. um stjórn fiskveiða og þróunarsjóðinn. Það var líka þess vegna sem mér fannst ástæða til þess að spyrja um þetta. Ég vakti reyndar ekki upp þessa umræðu um stjórn fiskveiða hér í dag. Ég taldi bara ástæðu til þess að svara því sem hæstv. sjútvrh. lagði hér til málanna, sem hann er reyndar vanur að gera við öll tækifæri, eins og ég sagði áðan, að reyna að leggja gott með þessum fiskveiðistjórnunarlögum, sem eru miklu óvinsælli og hafa miklu minna fylgi og stuðning heldur en hann vill vera láta, m.a. í hans eigin þingflokki, sem hann gleymir nú alltaf þegar hann er að mæta hér í ræðustól, hæstv. ráðherra, og tala um samstöðuna í öðrum flokkum. Ég held að það væri kannski rétt hjá honum að skoða samstöðuna í eigin röðum áður en hann talar jafndigurbarkalega og hann hefur gert um samstöðu annars staðar. Það er m.a. um að ræða í Framsfl., svo ég bæti nú við það sem hann þó sagði hér áðan, að það er ekki full samstaða þar heldur. Ég man eftir þingmanni sem mætti hér fyrir hönd Framsfl. um daginn í ræðustól á hv. Alþingis . . .  
    ( Forseti (VS): Hv. þm. er að svara andsvari frá hv. 4. þm. Reykn.)
    og sagði að hann styddi sóknarmarkskerfi í stjórn fiskveiða.