Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 23:08:51 (5526)


[23:08]
     Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Lítil hluti af svari þingmannsins laut að andsvari mínu og ég vil árétta það sem ég hef áður látið koma fram hér í þessum ræðustól varðandi flokksstjórnarfund Alþfl. sem vísað var til.
    Alþfl. hefur markað ákveðna stefnu til framtíðar í sjávarútvegsmálum. Í Alþfl. hafa verið mjög miklar efasemdir um að festa kvótakerfið í sessi, eins og fram hefur komið. Það var verið að árétta að með samþykkt þeirra breytinga sem eru í þeim frumvörpum sem lögð eru fram er ekki verið að takast á við það mál. Ég vil líka árétta það sem allir vita sem hafa átt þátt í stjórnarsamstarfi að það verður stundum á flokksráðsfundum, á flokksþingum að fjalla um stefnu flokkanna, en gera sér grein fyrr því að eðlilega þarf að fara í málamiðlanir í mörgum mikilvægum málum í samstarfi.
    Í nákvæmlega þessari samþykkt sem vísað var til var verið að taka á því að Alþfl. ætlar að skoða þessi mál áfram. Hann hefur nokkuð beittar meiningar um hvert hann vill ekki fara, en hann var ekki að festa stefnu sína í sessi á þeim flokksstjórnarfundi, en stendur að þeim málum sem voru lögð hér fram.