Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 23:10:32 (5527)


[23:10]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Hv. þm. sagði í fyrra andsvari sínu að hann mundi ekki vilja svara því sem ég beindi til hans, hann væri ekki vanur að svara því með ef og hefði og þess vegna var það nú sem ég fór kannski dálítið út í aðra sálma í andsvari við hann. Það var auðvitað þess vegna sem lítill hluti af mínu andsvari var við hans andsvari sem var hér á undan. Ég held að það sé erfitt og ég verð að segja það að lokum um þetta mál, að það hljóti að vera býsna erfitt fyrir hv. alþýðuflokksmenn að burðast með lögin um stjórn fiskveiða eða frumvörpin sem liggja hér fyrir þinginu og halda því fram að þeir standi að þeim heils hugar eftir þennan miðstjórnarfund sem ályktaði í þveröfuga átt. Ég tel að það hljóti að verða falskir tónar í stuðningi Alþfl. við kvótakerfið eins og það liggur fyrir og það ígildi eignarréttar sem er á veiðiheimildunum eftir að hafa gert þá samþykkt sem gerð var á miðstjórnarfundinum og það skulu verða mín lokaorð.