Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 23:33:15 (5538)


[23:33]
     Jón Helgason (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég gat ekki skilið það öðruvísi hjá útvegsbændum í Vestmannaeyjum en að það væru ekki aðeins einstaka útgerðir sem væru í erfiðleikum heldur væru það útgerðarmenn hinna hefðbundnu báta sem veiða botnfisk. Þeir njóta ekki góðs af því þó vel veiðist af loðnu og síld sem ekki veiða þær tegundir. Þannig að það er þessi hópur útgerðarmanna sem er illa settur, svo að sumir þeirra hafa þegar misst báta sína og það vofir yfir öðrum. Og þá er það spurningin hvort setningin sem ég las hér upp áður í samþykkt ríkisstjórnarinnar geti ekki gefið þeim von eða hvort hún sé eingöngu gerð til að vekja tálvonir. Ég var þess vegna að spyrja hæstv. sjútvrh. að því hvort hann mundi ekki beita sér fyrir því að þarna gæti orðið um raunverulega von að ræða, ef það væri mat þeirra sem úttekt gerðu, Byggðastofnunar, að þess væri þörf.