Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 23:34:59 (5539)


[23:34]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Aðalatriði þessa máls er að almenn rekstrarskilyrði í greininni, þrátt fyrir þá erfiðleika sem við er að etja, virðast vera viðunandi. Það liggur hins vegar ljóst fyrir að afkoma bæði fyrirtækja og einstakra greina innan sjávarútvegsins er mismunandi. Sumir hafa hagnað umfram það meðaltal sem við höfum verið að tala um og aðrir eru að tapa. Það er líka ljóst að í þeirri stöðu sem við erum í í dag þar sem aflaheimildir, einkanlega í þorski, hafa verið að dragast saman og við vitum að til að ná meiri hagkvæmni í veiðunum þarf sá floti sem stundar veiðar innan landhelginnar fremur að minnka en að stækka. Það er hluti af því markmiði sem unnið hefur verið að allt frá því að kvótakerfið var sett á fyrir forustu hv. 1. þm. Austurl., að ná fram þessari auknu hagkvæmni. Þannig að það er engan veginn hægt að fullyrða að öll skip hafi rekstrargrundvöll. Þar verður að horfa á fleiri þætti. Hér hafa menn verið að horfa á stöðu einstakra kjördæma, því sú aðgerð sem við erum að fjalla hér um í dag er byggðaaðgerð vegna þessarar sérstöku stöðu Vestfjarða.
    Það er líka alveg ljóst að ef við horfum á hefðbundna skiptingu milli veiða og vinnslu þá stendur fiskvinnslan betur en veiðarnar. Það er tiltölulega góð afkoma að meðaltali í fiskvinnslunni en lakari afkoma í heild í útgerðinni. En þegar greinin í heild er að skila hagnaði þá er hér fyrst og fremst um að ræða innbyrðis tekjuskiptingu í greininni en ekki atriði sem lýtur að almennum rekstrarskilyrðum.