Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 23:55:49 (5546)


[23:55]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég er ekkert viðkvæmur fyrir því að kalla þetta þvingunaraðgerð ef menn vilja kalla þetta þvingunaraðgerð. Við erum að setja mjög ströng skilyrði og þau skilyrði geta auðvitað leitt til þess að breyta áætlunum bæði fyrirtækja og sveitarfélaga, við gerum okkur grein fyrir því. Allar opinberar aðgerðir og lög geta leitt til breytinga á afstöðu manna, sveitarfélaga og fyrirtækja. Það að vilja sameinast eða ætla að sameinast er auðvitað til að sýna út á hvað þetta á að ganga. Annaðhvort getur nefndin breytt þessu orðalagi eða þá að þeir aðilar sem koma að starfinu, sem eru þessi starfshópur, mun auðvitað marka sér þá stefnu hvað þetta á að þýða í hvert sinn. Vegna þess að það er nokkuð skýrt að áherslan liggur á sameiningu.
    Varðandi einstök byggðarlög get ég að sjálfsögðu ekkert um það sagt. Ég tel að það sé ólíklegt að peningar renni til Reykhólahrepps eða Árneshrepps. Mér finnst vel líklegt að þeir geti farið til Tálknafjarðar ekki síst ef Tálknfirðingar samþykkja að sameinast nærliggjandi sveitarfélögum. Það þarf líka að kanna það rækilegar hvort fyrirtæki í Súðavík sem kannski eru að sameinast í einhverjum skilningi fyrirtækjum í öðrum byggðarlögum sem eru að sameinast, hvort slíkt fyrirtæki á heima inni í þessu. Ég þekki ekki þannig til á Hólmavík að ég geti um það sagt og ekki heldur á Þingeyri. En áherslan liggur á sameiningu sveitarfélaga og sameiningu fyrirtækjanna og peningarnir eru takmarkaðir.